Er Ísland útkjálki Noregs?
Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins, var hér á landi sem sérstakur gestur utanríkisráðherra eða utanríkisnefndar þingsins. Það sem hann sagði meiddi marga. Davíð Oddsson er í þeim hópi.
Í leiðara Moggans segir meðal annars: „Pólitískt mat Baudenbachers er þó ekki síður mikilvægt því að hann segir í raun að Norðmenn líti á Ísland sem hreint aukaatriði í EES-samningnum og ekkert annað en útkjálka frá Noregi. Og ef marka má orð Baudenbachers er Íslandi í raun pólitískt skylt að samþykkja allt það sem Norðmönnum og ESB dettur í hug að bera á borð, hvað sem EES-samningurinn sjálfur segir. Lögin skipta þá engu.“
Að þessu sögðu snýr Davíð sér að þingflokki Sjálfstæðisflokksins:
„Ætla þingmenn að láta þvinga sig til samþykkis við þriðja orkupakkann á þessum forsendum? Gefa þeir ekkert fyrir sjálfstæði Íslands og fullveldi? Þá hljóta margir að spyrja til hvers hafi verið barist.“
Davíð skrifar: „Þetta er ekki lagalegt álit heldur fyrst og fremst pólitískt mat og byggist á því að hann segir að „sú skoðun hafi alltaf verið til staðar í Noregi að túlka ætti EES-samninginn á þann veg að um tvíhliða samning væri að ræða á milli Norðmanna og Evrópusambandsins þar sem Íslendingar og Liechtensteinar væru í eins konar aukahlutverki“, eins og sagði í frétt á mbl.is í gær.“
Carl Baudenbacher skóf ekkert utan af hlutunum: „Nú þegar Liechtenstein og Noregur hafa aflétt stjórnskipulegum fyrirvörum ætlast ríkin til þess að Ísland geri slíkt hið sama.“