- Advertisement -

Er iðnbyltingin hættulegasta fyrirbærið sem mannkynið hefur fundið upp?

Við frestum loftlagsvánni eins og Castró jólunum.

Þröstur Ólafsson.

Þröstur Ólafsson hagfræðingur skrifar eftirtektarverða grein. Þar er að finna stóra spurningu.

„Það mun hafa verið síðla á áttunda áratug liðinnar aldar að innum opnar dyr aðstöðu minni á Máli og menningu á Laugaveginum vindur sér, mér vel málkunnugur en jafnframt þjóðkunnur maður, sest fyrir framan skrifborð mitt og spyr án þess að heilsa:

„Hvað heldur þú Þröstur, var ekki iðnbyltingin hættulegasta fyrirbærið sem mannkynið hefur fundið upp og framkvæmt frá upphafi, mun hún ekki tortíma öllu að lokum?“

Sigurður heitinn Blöndal skógræktarstjóri og Þröstur Ólafsson hagfræðingur.

Þetta var sagt með þungum hug. Honum var alvara. Af spannst fjörugt samtal um framfarir og hagvöxt, hugtak sem almenningi var enn ekki orðið tungutamt. Þarna var kominn Sigurður Blöndal, skógræktarstjóri. Auðheyrt var á máli hans og röksemdafærslu að þetta var honum alvöru umhugsunarefni. Ekki tók ég undir málflutning Sigurðar, færði fram gagnrök. Samtalið festist í huga mér og minnti oft á sig.

Var iðnbyltingin upphafið að endalokum mannkyns eða lykilinn að taumlausu velmegunarsvalli? Nú hálfri öld seinna eru vísindamenn frá öllum heimshornum og loftlagsstofnunum með blóðrauðar aðvaranir um þá geigvænlegu loftlagsvá sem yfir okkur gín.

Við látum okkur fátt um finnast, eins og ég gagnvart skógræktarstjóranum forðum daga, ypptum öxlum og lesum áfram um nýja virkjun sem hraða skal að reisa, því mikið liggi við, næsta gagnaver bíði fullbyggt. Fjárfestir milljarðar sárvanti meiri orku. Ósvinna sé að hinkra hvað þá fresta. Þó það sé annað mál, þá hefur nýja ríkisstjórnin hrint af stað nýrri þjóðaríþrótt sem er í því fólgin að gera tillögur um sparnað í ríkisrekstri. Þjóðin tók í árina og benti á fjölmargar gagnlegar hugmyndir hvernig aðrir eigi að spara.

Af hverju var ekki ýtt úr vör keppni um sparnað í orkunotkun eða ákveðið að veita ókeypis leiðbeiningar hvernig slökkva eigi á ljósaperu? Ný græn orka kallar á arðbæran hagvöxt, aukna auðlindanýtingu meiri mengandi neyslu. Meir að segja skynsömustu menn falla fyrir ákallinu um meiri neyslu – nýja virkjun. Við frestum loftlagsvánni eins og Castró jólunum.

Hafði sá mæti maður Sigurður Blöndal eftir allt rétt fyrir sér?“