Nú þarf að ígrunda vandlega hvort Grandi hefur brotið lög um stjórn fiskveiða með því að segja upp tæplega 100 starfsmönnum sínum á Akranesi. Árið 1988, þegar lögin voru samþykkt, krafðist Alþýðuflokkurinn þess, að ný upphafsgrein kæmi inn í lögin. Hún var sett sem skilyrði fyrir samþykki flokksins. Greinin hljóðar svo: „Fiskistofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra OG TRYGGJA MEÐ ÞVÍ TRAUSTA ATVINNU OG BYGGÐ Í LANDINU.“
Uppsagnir Granda valda uppnámi í atvinnulífi á Skaganum og treysta því ekki byggðarþróun. Því er auðvitað vandsvarað hvaða viðurlögum væri unnt að beita og kæmi þá helst til afturköllun veiðileyfa.
Alþýðuflokkurinn rak annan varnagla í lögin um stjórn fiskveiða, en það er þessi mikilvæga setning: „ÚTHLUTUN VEIÐIHEIMILDA SAMKVÆMT LÖGUM ÞESSUM MYNDAR EKKI EIGNARRÉTT EÐA ÓAFTURKALLANLEGT FORRÆÐI EINSTAKRA AÐILA YFIR VEIÐIHEIMILDUM.“ Þetta er líklega ein mikilvægasta setning íslenskra laga og hefur komið í veg fyrir, að útgerðin geti eignað sér kvótann, þótt þar á bæ vonist menn til þess, að senn skapist hefðarréttur og þeir geti slegið eign sinni á fiskinn í sjónum.
Samkvæmt þessari grein laganna, er ekkert sem mælir gegn því, að unnt sé að afturkalla tímabundin veiðileyfi Granda. Félagið hefur skilað liðlega 13 miljarða króna arði til eigenda síðustu 10 árin. Þessi arður, eins og hjá öðrum útgerðum, verður til vegna heimilda til útgerða landsins að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar. Gjaldið fyrir þessi einkaafnot er svokallað veiðigjald, sem vegur ekki þungt í krónupotti ríkissjóðs.
Grandmálið hefur þegar valdið mikilli ólgu í samfélaginu og sýnir, svo ekki verður um villst, að útgerðarmenn telja sig litlar skyldur hafa við almennt launafólk, sem á stóran þátt í velmegun útgerðar og fiskvinnslu. Úr þeirra herbúðum hefur jafnvel komið hótun um, að fiskvinnslan verði flutt úr landi, ef þeir telji hagsmunum sínum ógnað. Það er þjóðarnauðsyn, að sátt náist um skyldur útgerðarinn við þjóð sína, eigendur auðlindarinn, sem þeir nýta.
Árni Gunnarsson.