Já, það erum við að gera og einnig að gera fjárnám hjá einstaklingi, því hann getur ekki borgað fyrir ólöglega vistunina.
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins, skrifar:
Hér áður fyrr voru réttindi veiks fólks fótum troðin og það sett í nauðungarvistun og jafnvel flutt hreppa á milli í ánauð við óviðunandi aðstæður.
En hvernig er staðan á þessum málum í dag í okkar ríka lýðræðisríki? Er verið að nauðungarvista lamað fólk inni á hjúkrunarheimilum? Já, það erum við að gera og einnig að gera fjárnám hjá einstaklingi, því hann getur ekki borgað fyrir ólöglega vistunina.
Já, það er verið að neyða hreyfihamlaðan einstakling til að vera á stofnun sem hann vill ekki vera á og þá einnig að gera fjárnám í húseign hans. Er hægt að ganga lengra fram í ofbeldi gegn einum einstaklingi? Því miður er fjöldi dæma á undanförnum árum um svipaða meðferð á veiku fólki sem getur ekki varið sig og verður að lifa við svona ömurlegar aðstæður.
Veikt fólk og hvað þá ungt eða miðaldra fólk sem á rétt á NPA-samningi á ekki að vista á hjúkrunarheimili sem eru fyrir 67 ára og eldri. Það má ekki útvíkka heimildir og brjóta mannréttindi á hreyfihömluðu fólki með nauðungarvistun á hjúkrunarheimili bara til að spara hjá ríki og sveitarfélögum.
Já, spara á kostnað þeirra sem ekki geta varið sig og það á sama tíma og það virðist vera til fullt af peningum til að takast á við COVID-19. Spurning er hvort þetta sé það sem koma skal og ríkið og sveitarfélög séu búin að finna breiðu bökin hjá hreyfihömluðum, öryrkjum og eldri borgurum og hjá þeim eigi bara að spara vegna COVID-19?
Þetta er fyrri hluti greinar sem Guðmundur Ingi skrifaði og birt er í Mogganum í dag.