„Þá er það ekkert annað en gróft fjárhagslegt ofbeldi að segjast borga veiku fólki og eldri borgurum jólabónus upp á um 44.500 krónur og skatta og skerða hann síðan í spað, þannig að ekkert er eftir. Jú, auðvitað hjá sumum er tapið eftir og það hjá þeim sem verst fara út úr þessari furðulegu jólagjöf. Þetta sama skatta- og skerðingaplat er einnig gert við orlofsuppbótina að sumri til. Það væri hægt að borga þennan jólabónus skatta- og skerðingalausan í um 50 til 100 ár til öryrkja og eldri borgar fyrir tapið hjá Íbúðalánsjóði.
Þá er einnig flokkuð sem kostnaður hver einasta króna sem þessi ríkisstjórn þarf að borga til öryrkja og eldri borgara, en bara tapið hjá Íbúðalánasjóði mundi til dæmis duga í um sex ár fyrir skatta og skerðingarleysi á lífeyrislaunum upp á 300.000 krónur á mánuði fyrir þennan hóp hjá Tryggingastofnun ríkisins.“
Þannig skrifaði hinn ódeigi þingmaður Flokks fólksins, Guðmundur Ingi Kristinsson, og Mogginn birtir í dag.
„Þingsályktunartillaga Flokks fólksins um að öryrkjar fengju 300.000 krónur skatta- og skerðingarlaust var feld á Alþingi rétt fyrir jól. Kostaði of mikið og þetta væri brot á jafnræðisreglunni og með henni væri verið að mismuna atvinnulausum og námsmönnum. Hvar er þessi jöfnuður þegar lágmarkslaun eru 300.000 á mánuði, atvinnulausir fá 280.000 á mánuði og flestir öryrkjar fá 250.000 krónur fyrir skatt? Þá er auðvitað farið eftir jafnræðisreglunni þegar við þingmenn fáum 181.000 krónur í jólabónus, atvinnulausir 80.000 krónur og öryrkjar 44.500 krónur. Fullkominn jöfnuður þar?“ Þannig skrifar Guðmundur Ingi.
Guðmundi Inga er tamt að tala upp hið mikla klúður í löggjöfinni um Íbúðalánasjóð.
„Er það ekki kostnaður fyrir ríkissjóð að tapa hundruðum milljarða króna hjá Íbúðalánasjóði vegna mistaka við lántöku hjá sjóðnum? Tap sem verður vegna þess að lántakandinn hjá sjóðnum getur greitt upp sitt lán, en Íbúðalánasjóður getur ekki greitt lánið upp hjá lánveitanda hans. Sjóðurinn situr uppi með vaxtamun árum saman og tapið hleypur á um 150 milljörðum til 300 hundrað milljarða króna ef allt fer á versta veg.
Á sama tíma er talað um það á Alþingi af núverandi ríkisstjórn og þá sérstaklega fjármálaráðherra að það hafi verið kostnaður upp á um 5 milljarða króna að leiðrétta skerðingar á lífeyrislaunum eldri borgara hjá Tryggingastofnun ríkisins. Endurgreiðsla vegna lögbrota sem voru gerð vísvitandi og viljandi með ólöglegum afturvirkum lögum á Alþingi er flokkuð sem kostnaður. Það er ekki kostnaður að borga samkvæmt lögum, löglegan rétt lífeyrislaunaþegans.
Það er furðulegt að það sé alltaf kostnaðartal sem fer af stað þegar á að borga öryrkjum, eldri borgurum og atvinnulausum hækkun á þeirra lífeyri. Lífeyrislaunaþegar hjá Tryggingastofnun ríkisins eru þeir einu sem ekki hafa fengið leiðréttingu á sínum lífeyri aftur í tíma og það frá hruninu, eins og allir aðrir hafa fengið. Er það jöfnuður?“