Alþingi
„Hvaða Grindvíkingar hafa nú þegar fengið borgað frá Þórkötlu fyrir húsin sín? Eru það bara þeir sem eru með rétt flokksskírteini upp á vasann? Eftir að samþykkt voru uppkaup á húsnæði í Grindavík af Þórkötlu átti að greiða út upphæðina eftir viku, en nú eru liðnar vikur og ekkert bólar á peningunum,“ þetta sagði Guðmundur Ingi Kristinsson Flokki fólksins á Alþingi.
„Grindvíkingur spurði mig áðan hvort Þórkatla, sem er fyrirbærið sem á að kaupa upp húsnæði í Grindavík, væri til í raunveruleikanum. Mér fannst þetta góð spurning, sérstaklega vegna þess að þingmaður Flokks fólksins hefur ítrekað reynt að ná í forystumenn Þórkötlu án nokkurs árangurs og kemst þar með í hóp fjölda Grindvíkinga sem án árangurs hafa reynt það sama. Frá Þórkötlu heyrist hvorki stuna né hósti, og hvað þá að standa við það sem var lofað,“ sagði Guðmundur Ingi.
„Fólkið í Grindavík er að verða fyrir fjárhagslegu tjóni og á það á hættu að missa húsnæði sitt vegna þessa. Er ekki búið að leggja nóg á fólkið, sem fyrst upplifði jarðskjálfta mánuðum saman og síðan gos og hraun inni í bæ? Hvað verður næst í boði ríkisstjórnarinnar, heilsutjón vegna andlegs og líkamlegs álags við að fá lausn sinna mála þegar margsinnis er búið að lofa því?
Ríkisbankinn, Landsbankinn, er stútfullur af peningum og því hæg heimatökin hjá ríkisstjórninni að fá lán hjá sjálfri sér og borga Grindvíkingum strax. Aldrað fólk er á hrakhólum og á í engin hús að leita. Hvað næst, hreppaflutningar á hjúkrunarheimili úti á landi? Verður það næst í boði fyrir aldraða Grindvíkinga? Grindvíkingar, ungir sem aldnir, eru enn þá í hjólhýsum, margir eru í skelfilegum húsnæðisvandræðum og aðrir í óíbúðarhæfu húsnæði. En börnin, hvaða áhrif hefur þetta á þau? Hvaða áhrif hefur það á börnin að foreldrar þeirra geti ekki staðið við sínar skuldbindingar? Er ekki kominn tími til að ríkisstjórnin standi við stóru orðin og sjái til þess, eins og hún lofaði, að hjálpa Grindvíkingum og það strax? “
Þetta eru ófagrar lýsingar sem ekki er hægt að draga í efa.