Enn þéttast raðir gamla íhaldsins og Miðflokksins. Fyrst gengu hersingarnar í takt með orkupakkann sem sameiningartákn. Nú er það borgarlínan.
Davíð Oddsson, sem fer fyrir gamla íhaldinu, skrifar í blað sitt í dag og vitnar til góðs vinar síns og samherja í áratugi:
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri, kemur inn á þetta í grein í blaðinu í gær og segir: „Ekki kæmi á óvart að Borgarlínuverkefnið yrði verulega kostnaðarsamara en nú er gert ráð fyrir.“
Davíð segir svo: „Enginn getur fullyrt nú hver kostnaðurinn við Borgarlínuna verður þegar upp er staðið, en þeir sem knýja á um að ráðist verði í framkvæmdina, eða samþykkja hana í borgarstjórn eða á Alþingi, verða að standa sig mun betur í að láta meta kostnaðinn og skoða meðal annars hvernig sambærileg verkefni, þar með talin lestarverkefni, í erlendum borgum hafa farið langt yfir kostnaðaráætlun. Og þá er ekki einu sinni byrjað að ræða áætlaðan rekstrarkostnað, sem hefur verið eitt best varðveitta leyndarmál þessa vafasama risaverkefnis.“
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Pírati og formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur, skrifaði í Moggann í gær og kallaði Davíð „freka karlinn“. Það meiddi Bergþór Ólason, Miðflokki og formann samgöngunefndar Alþingis. Bergþór skrifar í Moggann í dag um Sigurborgu Ósk: „Þar lýsti hún því að tími freka karlsins væri liðinn.“ Og: „Svo virðist sem freka konan sé hálfu verri en freki karlinn.“
Bergþór skrifar einnig og freistar þess að ná Viðreisn yfir í fylkingu Miðflokks og gamla íhaldsins: „Núverandi meirihluti Samfylkingarinnar í Reykjavík, með öllum sínum varadekkjum, virðist ætla að setja undir sig hausinn og þvinga íbúa höfuðborgarinnar inn í svokallaða borgarlínu. Allt gerist þetta nú í boði Viðreisnar, sem tók að sér að vera nýjasta varadekkið undir vagni borgarstjóra. Lítil veikluleg varadekk sem ætluð eru til þess eins að koma bifreið á næsta dekkjaverkstæði ganga undir ákveðnu nafni. Það kemur á óvart að flokkur Benedikts Jóhannessonar taki að sér að vera í því hlutverki.“
Komandi kosningavetur verður hrein dásemd.