Mannlíf

Er fjármálaráðherrann illa læs á tölur?

By Miðjan

June 14, 2021

Ef formaður stjórnmálaflokks er einn í framboði til fyrsta sætis og ef tuttugu prósent þátttakenda vilja hann ekki í það sæti, er spurt. Er mikið að fá áttatíu prósent eða er það lítið? Auðvitað er það skammarlega lélegt. Enginn andstæðingur eða keppinautur. Bara formaðurinn og fimmti hver sendir honum fingurinn.

Bjarni Ben lætur sem allt sé í himnalagi. Í Mogga dagsins segir hann: „Ég auðvitað gleðst yfir því að fá mik­inn stuðning.“ Stundum er efast um hvort Bjarni sé mjög talnaglöggur maður. Kannski er hann það bara alls ekki. Sem er vont fyrir fjármálaráðherra. Enda er hér mesta verðbólgan, hæstu vextirnir og mest atvinnuleysið.

Höldum áfram. Tíundi  hver kjósandi í prófkjörinu vildi ekki einu sinn sjá formanninn á listanum. Eins og hann væri bara ekki til. Samt lætur Bjarni eins og hann sé ánægður. Skrípaleikur.

Best er að halda að staða flokksins í kjördæmi Bjarna sé ekki sterk. Þátttakan í prófkjörinu var minni en oftast áður og enginn þingmannanna fékk góða kosningu. Þingsæti Óla Björns Kárasonar er í mikilli hættu. Samt er hann er mesti stjórnmálamaðurinn af þeim sem skipa efstu sætin. Það er kannski þess vegna, hver veit.

-sme