- Advertisement -

Hér er fákeppni í skjóli lífeyrissjóða

- þingmaður segir lífeyrissjóðina vera allt of marga, eru um tuttugu en segir fjóra eiga að duga.

Þorsteinn Sæmundsson.

„Lífeyrissjóðirnir á Íslandi eru mjög fyrirferðarmiklir í þjóðfélaginu. Þeir eiga um 70% allra markaðsskuldabréfa. Stór líkindi eru á því þegar maður fer út í búð að versla að maður sé að versla við lífeyrissjóð. Ef maður tekur bensín er maður væntanlega að því líka. Ef maður tryggir búslóð sína og ökutæki er maður væntanlega líka að versla við lífeyrissjóð,“ sagði Þorsteinn Sæmundsson, í umræðu um lífeyrissjóðina, á Alþingi.

Matvörukeðjurnar halda uppi vöruverði

„Lífeyrissjóðirnir eru núna ráðandi afl á hlutabréfamarkaði og því miður mjög fyrirferðarmiklir, allt of fyrirferðarmiklir, í samkeppnisrekstri. Þeir halda í raun uppi fákeppni á Íslandi. Þeir eiga tvær stærstu matvörukeðjurnar, sem eru líklega með upp undir 70–75% markaðshlutdeild. Ég hef oft orðað það þannig að það hvernig matvörukeðjurnar halda uppi vöruverði á Íslandi er ávísun á að þeir sem versla þarna á hverjum degi séu í raun að borga framtíðarlífeyri sinn, með því að greiða hærra vöruverð,“ sagði hann.

Reka sjóðina úr landi

„Sjóðirnir eru það fyrirferðarmiklir að þeir jafnast á við olíusjóð Norðmanna í Noregi og Norðmenn ráku hann úr landi mjög fljótt. Það er það sem þarf að gera við lífeyrissjóðina. Þeir eru allt of fyrirferðarmiklir. Þeir þurfa að fjárfesta miklu meira erlendis.“

Það er óþolandi

„En síðan kemur annað, þeir eru allt of margir, reksturinn er óskilvirkur. Rekstrarkostnaðurinn hleypur á 7–10 milljörðum, eftir því við hvern maður talar, og það er náttúrlega óþolandi vegna þess að þeir fjármunir ættu sem best að geta nýst til útgreiðslu bóta eða ellilífeyris fyrir þá sem eiga hlutdeild í þessum sjóðum. Það er sérstakt rannsóknarefni og það er kannski spurning númer eitt til ráðherra: Hyggst hann beita sér á einhvern hátt til fækkunar lífeyrissjóða sem eru nú rúmlega 20 en gætu sem best verði t.d. fjórir?“

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: