Ég held að allt tal um að við séum í svo miklu betri efnahagslegri stöðu nú en við vorum fyrir bankahrunið árið 2008.
Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, tók þetta saman:
Ég held að allt tal um að við séum í svo miklu betri efnahagslegri stöðu nú en við vorum fyrir bankahrunið árið 2008 sé hugsanlegt ofmat og jafnvel byggt á óskhyggju. Förum yfir 10 punkta sem ég hef skrifað hér á fyrsta degi samkomubanns:
1. Opinber skuldastaða er í raun nokkuð svipuð núna og hún var 2008. Í raun er skuldastaða ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu hærri núna (um 30%) en hún var fyrir hrunið 2007 (um 20%). Það er rétt að einkaaðilar skulda mun minna núna en þá en þær skuldir voru að stórum hluta afskrifaðar 2008 og lentu fyrst og fremst á erlendum kröfuhöfum.
2. Nú þegar eru um 9 þúsund manns atvinnulaus og voru það fyrir þetta áfall. Í hruninu 2008 urðu 20 þúsund manns atvinnulaus. Atvinnuleysi mun aukast talsvert á næstunni.
3. Ferðaþjónustan er langstærsta atvinnugreinin okkar núna og það er einmitt sú atvinnugrein sem er fyrst og fremst að verða fyrir þessu áfalli.
4. Við erum jafnvel háðari ferðaþjónustu nú en við vorum háð bankaþjónustu árið 2008. Sem hlutfall af landsframleiðslu er ferðaþjónustan svipuð núna og bankaþjónustan var árið 2007.
5. Bein störf í ferðaþjónustu árið 2020 eru hins vegar meira en helmingi fleiri (25 þús) en störfin í fjármálaþjónustunni árið 2007 (9 þús.).
6. Hlutur erlendra ferðamanna í verðmætasköpun ferðaþjónustu er hlutfallslega um 70% og má ætla að fækkun ferðamanna kunni að hafi áhrif á um 18 þúsund störf hér á landi.
7. Nú er ljóst að ferðaþjónustan mun minnka til muna næsta árið og kannski lítið koma í staðinn. Í síðasta hruni gat ríkið þó komið inn í bankana 2008 og rekið þá áfram með þeim störfum sem þar voru að stærstum hluta. Ríkið er væntanlega ekki að fara að reka hótel, leiðsögufyrirtæki, bílaleigur, veitingastaði, verslanir, afþreyingarþjónustu, rútufyrirtæki o.s.frv. í þessu hruni.
8. Gengi krónunnar (virðið hennar) mun lækka til muna (er nú þegar byrjað) sem þýðir lífskjararýrnun fólks og verðbólguskot eins og síðast með tilheyrandi áhrifum verðtryggingar.
9. Innviðir eru enn veikir s.s. heilbrigðisþjónustan sem var álitin búa við „neyðarástand“ áður en kóróna-veiran barst til landsins.
10. Auðvitað er sumt í betri málum núna en var árið 2008. Hins vegar er rétt að búa sig undir erfiða efnahagslega tíma. Við getum þetta alveg en þá þurfa stjórnvöld að huga fyrst og fremst að fólkinu og heimilunum í landinu og þeirra stöðu.