- Advertisement -

Er efnahagslífið stjórnlaust?

Alþingi „Nú langar mig að viðra þær grunsemdir mínar að efnahagslífið sé stjórnlaust líka og það ríki lausatök á stjórn efnahagsmála,“ þannig spurði Guðmundur Steingrímsson, Bjartri framtíð, Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi í gær. Tilefnið var nýgerðir kjarasamningar og aðkoma ríkisins að þeim.

„Það er rétt sem háttvirtur þingmaður nefnir að launahækkanir af þeirri stærðargráðu sem menn hafa samið um til þessa munu setja einhvern verðbólguþrýsting, þó finnst mér að við séum að fá niðurstöðu í þau mál sem er þó nokkuð vægari eða mildari hvað varðar verðbólguáhrif en margt af því sem maður heyrði í umræðunni undanfarna mánuði og óttaðist að yrði á endanum niðurstaðan,“ sagði Bjarni meðal annars í svari sínu.

„En ef við skoðum efnahagslífið og stígum aðeins frá þeim kjaradeilum sem hafa verið og skoðum hvað er undirliggjandi, hvað er að gerast, þá erum við núna ef vel spilast úr hlutunum að upplifa lengsta samfellda hagvaxtarskeið seinni tíma, það er mjög jákvætt. Það er meiri vöxtur í kortunum á Íslandi en víðast hvar annars staðar. En hvernig okkur mun ganga í glímunni við verðbólguna er kannski stóra spurningin. Þá er líka mjög mikilvægt þegar upp verður staðið að menn segi ekki: Þetta var á endanum allt saman krónunni, íslensku krónunni, um að kenna.“

Guðmundur tók aftur til máls og sagði þá meðal annars: „Ég held að stærstu mistök Íslendinga við stjórn efnahagsmála hafi verið gerð á góðæristímum og þetta lýtur að tímasetningu, að gera einhvern veginn allt gott í einu, skattalækkanir, launahækkanir, efla byggingariðnaðinn og þar fram eftir götunum, og að henda svo inn kannski virkjunum líka, vonandi ekki. Það leiðir einfaldlega til þess að við fáum ofþenslu, við fáum ásigkomulag þar sem við verðum aftur með ríkjandi viðskiptahalla, háa vexti, innstreymi á fjármagni og það kemur öllum illa, sérstaklega þeim sem sitja eftir í þessum aðgerðum eins og bent var á hér fyrr í dag. Það er ástæða til að hafa uppi varnaðarorð.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: