Fréttir

Er dómsmálaráðherra geimálfur?

By Miðjan

December 22, 2018

Óþekkti embættismaðurinn, verk Magnúsar Tómassonar.

„Ráðherr­ar og þing­menn bera á hinn bóg­inn skýra ábyrgð, starfa und­ir vök­ulu auga fjöl­miðla og al­menn­ings og eru látn­ir fara ef al­menn­ingi mis­lík­ar.“

Hvað sem fólk kann að halda þá eru þetta ný og óbreytt orð Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra. Ef hið minnsta vit væri í orðum hennar sæti hún ekki lengur á ráðherrastóli og sama mætti segja um svo marga, marga aðra ráðherra. Af orðum hennar mætti halda að hún búi í öðru vistkerfi en þjóðin.

Leiðin að birtingu orða ráðherrans hér er nokkuð löng. Sigríður var víst í viðtali í Þjóðmálum um Landsréttarmálið og eftir að blaðið kom út endurbirtir Mogginn það helsta úr því í Staksteinum. Enda er varla armslengd milli Moggans og Þjóðmála.

„Í gegn­um tíðina hef­ur oft komið upp sú umræða við skip­an­ir dóm­ara að ráðherra hafi þar ein­hver ann­ar­leg sjón­ar­mið að baki og í raun stjórn­mála­menn all­ir ef því er að skipta. Eins og það sé eng­inn að vinna af heil­ind­um sem er í stjórn­mál­um. Á sama tíma vita menn varla hverj­ir sitja í þess­um stjórn­sýslu­nefnd­um á hverj­um tíma, hvaða hags­muni þeir hafa eða tengsl sem gætu haft áhrif á störf þeirra.“

Þarna er of djúpt tekið í árina. Varla heldur nokkur manneskja að enginn þingmaður eða ráðherra vinni að heilindum.

Davíð tekur undir með Sigríði: „Óhætt er að taka und­ir þessi orð Sig­ríðar. Og gott bet­ur. Al­mennt er það ekki aðeins svo að menn viti „varla“ hverj­ir sitja í stjórn­sýslu­nefnd­um, það er al­mennt alls ekki á nokk­urs manns vitorði.“

Má skilja sem svo að „óþekkti embættismaðurinn“ sé með öllu lífsins ómögulegur?

Sigríður dómsmála endar þetta með þessum orðum: „Þeir sem í slík­um nefnd­um vinna sinna störf­um sín­um í skjóli fyr­ir umræðu og ábyrgð. Ráðherr­ar og þing­menn bera á hinn bóg­inn skýra ábyrgð, starfa und­ir vök­ulu auga fjöl­miðla og al­menn­ings og eru látn­ir fara ef al­menn­ingi mis­lík­ar. Lýðræðið krefst þess að völd­in séu hjá slíku fólki en ekki því ókjörna og and­lits­lausa.“

-sme