„Ráðherrar og þingmenn bera á hinn bóginn skýra ábyrgð, starfa undir vökulu auga fjölmiðla og almennings og eru látnir fara ef almenningi mislíkar.“
Hvað sem fólk kann að halda þá eru þetta ný og óbreytt orð Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra. Ef hið minnsta vit væri í orðum hennar sæti hún ekki lengur á ráðherrastóli og sama mætti segja um svo marga, marga aðra ráðherra. Af orðum hennar mætti halda að hún búi í öðru vistkerfi en þjóðin.
Leiðin að birtingu orða ráðherrans hér er nokkuð löng. Sigríður var víst í viðtali í Þjóðmálum um Landsréttarmálið og eftir að blaðið kom út endurbirtir Mogginn það helsta úr því í Staksteinum. Enda er varla armslengd milli Moggans og Þjóðmála.
„Í gegnum tíðina hefur oft komið upp sú umræða við skipanir dómara að ráðherra hafi þar einhver annarleg sjónarmið að baki og í raun stjórnmálamenn allir ef því er að skipta. Eins og það sé enginn að vinna af heilindum sem er í stjórnmálum. Á sama tíma vita menn varla hverjir sitja í þessum stjórnsýslunefndum á hverjum tíma, hvaða hagsmuni þeir hafa eða tengsl sem gætu haft áhrif á störf þeirra.“
Þarna er of djúpt tekið í árina. Varla heldur nokkur manneskja að enginn þingmaður eða ráðherra vinni að heilindum.
Davíð tekur undir með Sigríði: „Óhætt er að taka undir þessi orð Sigríðar. Og gott betur. Almennt er það ekki aðeins svo að menn viti „varla“ hverjir sitja í stjórnsýslunefndum, það er almennt alls ekki á nokkurs manns vitorði.“
Má skilja sem svo að „óþekkti embættismaðurinn“ sé með öllu lífsins ómögulegur?
Sigríður dómsmála endar þetta með þessum orðum: „Þeir sem í slíkum nefndum vinna sinna störfum sínum í skjóli fyrir umræðu og ábyrgð. Ráðherrar og þingmenn bera á hinn bóginn skýra ábyrgð, starfa undir vökulu auga fjölmiðla og almennings og eru látnir fara ef almenningi mislíkar. Lýðræðið krefst þess að völdin séu hjá slíku fólki en ekki því ókjörna og andlitslausa.“
-sme