Tilgangur eigenda Moggans er fyrst og síðast sá að verjast breytingum á kvótakerfinu, að verjast inngöngu Íslands í Evrópusambandsins og svo að berjast gegn breytingum á stjórnarskrá. Breytingar á stjórnarskránni er verk leiðarahöfundarins í dag.
Tækifærið er notað til að hnýta í Jóhönnu Sigurðardóttur og ríkisstjórn hennar. Allt samkvæmt Moggahefð.
„Það er enginn áhugi með þjóðinni eftir „nýrri stjórnarskrá“.“ Þetta segir í leiðaranum. Bara enginn áhugi segir Mogginnn. Ekki einn einasti er fullyrt í Mogganum. Þá að hruninu:
„Þó er því haldið fram með reglubundnum hætti. Af hverju fór málið af stað með ógnvænlegum pólitískum þunga 2009? Hreina vinstristjórnin skolaðist inn á þing með drjúgt fylgi eftir vel skipulagt uppnám þjóðarinnar, grjótkast og hávaða sem gerði Alþingi illfært að sinna sínum verkum. Hæpið er að nokkur ríkisstjórn í sögu landsins hafi tapað fylgi jafn hratt og „eina hreina vinstristjórnin“. Eftir 24 mánuði var nauðsynlegur stuðningur við hana fokinn burt, jafnt innan sem utan þings. Samt hékk hún eins og óþvegin tuska á snúru uns seinustu klemmurnar gáfu sig.“
Þetta orðaval vekur upp spurningar um hver sé höfundur leiðarans. Þetta er ekki svo líkt Davíð. Jæja, leyfum Davíð að njóta vafans,
„Alþjóðlega bankaáfallinu, sem vissulega átti íslenska hlið, var á hinn bóginn snúið upp í séríslenskra gerð úr tengslum við allt annað. Með atbeina Ríkisútvarpsins og fjölmiðla Baugs voru spunnar upp sakir sem beindu sjónum frá þeim sem höfðu misnotað lánstraust þjóðarinnar út á við í eigin þágu og blindað stjórnmálamenn til að afneita aðvörunarorðum um hvað stefndi óhjákvæmilega í. Markmiðið með ofbeldisaðgerðunum í bland við fölsun nýliðinnar sögu var að steypa um grunnstoðum á Íslandi þegar þjóðin næði ekki vopnum sínum vegna tímabundins fárs. Það átti að læða landinu inn í ESB með „vísun“ til þess að hefði landið verið þar inni þá hefði ekkert „hrun“ orðið.“
Sama gamla tuggan. Já, Mogginn gleymir ekki að hann ætlar að verjast breytingum á stjórnarskránni:
„Stjórnarskrá á að breyta seint og hægt og allra síst í uppblásnu ástandi knúnu fram í krafti skipulagðrar múgæsingar. Hvenær sem „breytingarnar“ koma upp úr pukrinu sem þær eru unnar í, sýna viðbrögðin að ekki er fjöður fyrir því að þarna sé ferðinni „krafa þjóðarinnar“ sem hafi ekki verið svarað.“