Karen Elísabet Halldórsdóttir, sem keppir að því að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi og verða þar með bæjarstjóraefni, skrifar í Moggann í dag. Við lestur greinar hennar vakna margar spurningar varðandi borgarlínuna.
„Ég sit í stjórn Strætó bs. þar sem starfsmenn og stjórn glíma við töluverðan rekstrarvanda eftir erfið Covid-ár. Það virðist verða okkur erfitt að ná fólki aftur inn í vagnana og ekki auðséð hvort það sé vegna þess að fólk vill síður vagnaflutning, sé enn frekar komið á rafskútur og hjól, hvort bílaeign hafi aukist eða hvort fjarnám og -vinna sé komin til að vera. Eigendur Strætó heimiluðu lántökur fyrir rekstri á komandi ári sem og vagnakaupum í þeirri von að það birti til í rekstrinum á næsta ári. Þrátt fyrir það þurfum við að hagræða í rekstri og það er aðeins gert með því að fikta í leiðakerfinu sem hefur áhrif á þjónustuna,“ skrifar Karen.
Hún lýsir vandræðaástandi hjá Strætó. Karen er hugsi.
Borgarlínan:
Í samræðum mínum við þingmenn og ráðherra virðist enginn þeirra vera tilbúinn til þess að leggja til aukið fé í rekstur borgarlínu eða vagnakaup. Hver er þá staðan?
„Í þessari stöðu á ég erfitt með að ná utan um borgarlínuverkefnið. Flestir virðast gera ráð fyrir því að borgarlínan verði hýst innan veggja Strætó en slík ákvörðun hefur hvergi verið formlega tekin og því fylgir töluverð óvissa. Ég er algerlega fylgjandi því að efla almenningssamgöngur og tel þær nauðsynlegan valkost fyrir almenning. Til þess að þær gangi þurfa þær að stytta ferðatíma og vera áreiðanlegar. Vegna þessa kom fram svokölluð borgarlínuhugmynd, sem lifir að því er virðist sjálfstæðu lífi án þess að efnisleg umræða hafi nokkurn tímann verið tekin innan bæjar- og borgarstjórnar. Í mínum huga er þetta verkefni algerlega ófjármagnað, hvort sem það snýr að rekstri, vagnakaupum eða stoppistöðvum. Þetta er algerlega óviðunandi staða fyrir mig sem kjörinn fulltrúa íbúa í Kópavogi.“
Þetta er svolítið íslenskt: „Í mínum huga er þetta verkefni algerlega ófjármagnað…“
Þessu til staðfestingar skrifar hún:
„Í samræðum mínum við þingmenn og ráðherra virðist enginn þeirra vera tilbúinn til þess að leggja til aukið fé í rekstur borgarlínu eða vagnakaup. Hver er þá staðan? Jú, það hlýtur þá að vera svo að gert sé ráð fyrir því að sveitarfélögin fjármagni þetta sem nú þegar eru að hika við að auka fé til Strætó. Hvert og eitt sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu er með sínar fjárhagsáætlanir í járnum eftir undanfarin tvö ár og gleymum ekki að tekjustofnar sveitarfélaga eru einsleitir og fáir. Þrátt fyrir þessa óvissu eru sveitarfélögin með á sínu borði tillögur að útfærslu borgarlínureina sem raska skipulagi bæjarfélaga a.m.k. hér í Kópavogi, þar sem fyrsti leggur á að fara í gegnum Borgarholtsbraut og yfir Fossvogsbrú. Hér fer ekki saman hljóð og mynd og ljóst að frambjóðendur til sveitarstjórna þurfa að sökkva sér í þetta stóra verkefni sem gróflega er áætlað að kosti 2,5 milljarða aukalega í rekstri leiðakerfis Strætó.“
Grein Karenar endar svona:
„Skýrslur og áætlanir hafa verið gerðar, en enn hefur ekki fundist lausn á hver og hvernig á að reka kerfið. Hins vegar hefur samgönguráðherra verið sá eini sem hefur talað alveg skýrt um þetta. Hann sér ekki fyrir sér að ríkið komi til með að auka neitt við það fjármagn sem renni til rekstrar almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu samfara því að nýtt kerfi hágæða almenningssamgangna, borgarlína, verður tekið í notkun.“
Er þetta þá allt ein froða?