- Advertisement -

Er Alþingi ekki í lit?

Mikið er á þingmennina okkar lagt. Foringi þeirra og forseti mætti í Kastljós og sagði svo eiginlega allt vera á gráu svæði. Til dæmis hvort prófkjörsbarátta eigi að greiðast af Alþingi eða frambjóðandanum sjálfum eða flokki hans. Svo er að skilja að það sé þingmönnum um of að greina á milli eigin erinda og vinnunnar.

Forseti þeirra er á því að allt sé þetta á gráu svæði. Mjög gráu. Af honum má skilja að þingmennirnir verði að njóta vafans geti þeir ekki greint á milli eigin þarfa eða erinda Alþingis.

Það er borin von að það takist að færa starfsreglurnar hér að því sem tíðkast annarsstaðar. Vandinn hér er sá að meirihluti þingmanna er flestir samsekir.

Það er ekki gott að þingmenn fái að ráða hvort þeir fari eftir þeim fábreyttu reglum sem hér eru, eða ekki. Einkum þegar þeir geta ekki metið hvort þeir eru á eigin vegum eða vegna starfs síns sem þingmenn á Alþingi.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Við erum í bölvuðu klandri með þetta. Flestir eru þeir samsekir og það dregur úr líkunum á að nokkru verði breytt. Því miður. Vantrú fólks á Alþingi mun aukast. Það þarf meira en nefnd eða starfshóp til bæta þar úr.

Forseti þingsins segir að til greina komi að opna fyrir upplýsingar um greiðslur til þingmanna. Hann hefur aldrei verið spurður hvort upplýsingarnar, verði þær birtar, nái þá líka til baka, til síðustu ára. Það er ekki nóg, verði einhverju breytt, að fá vita hvernig þetta verður, við verðum líka að vita hvernig þetta var.

Sigurjón M. Egilsson.

 

 

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: