Kristinn Jens Sigþórsson, sem var síðasti sóknarpresturinn sem sat Saurbæ á Hvalfjarðarströnd skrifaði grein um Agnesi Sigurðardóttur í Moggann í gær. Hér fer hluti greinarinnar:
Má ljóst vera að skynbragð presta á siðferðisþátt málsins er nánast ekkert því þótt prestar séu ekki lögfræðingar ættu þeir samt að vera sæmilega áttaðir á kröfum kristinnar siðfræði. Er á það að benda að þótt staða Agnesar sem biskups kunni að vera lögfræðilegt álitamál þá blasir við að framganga hennar er siðlaus, því hvers konar siðferði felst í því að gera ólögmætan ráðningarsamning við sjálfa sig til nokkurra ára og leyna honum síðan staðfastlega fyrir réttbærum yfirvöldum með þeim afleiðingum að vegið er að einingu kirkjunnar?
Sá sem hér ritar hefur furðað sig á hvernig mál hafa þróast innan þjóðkirkjunnar í biskupstíð Agnesar og hefur spurt sig að því hvort kirkjan sé að breytast í „költ“, þ.e.a.s. breytast í trúarklíku? Þegar leitað er skilgreininga á því hvað „költ“ er koma fram þau einkenni klíkunnar að leiðtoginn er jafnan sjálfskipaður og sagður búa yfir „karisma“ – þ.e. persónutöfrum. Blasir við að þjóðkirkjan lýtur nú sjálfskipaðri forystu Agnesar M. Sigurðardóttur og að því leyti er eitt helsta skilyrðið um trúarklíku uppfyllt. Öllu örðugra er að skynja að leiðtoginn búi yfir nokkru sem kalla mætti „karisma“. Þó er til þess að horfa að í nútímanum er nóg að vera kona til að hafa „karisma“. Er í þessu sambandi vert að rifja upp að Agnes M. Sigurðardóttir var einmitt kosin til að gegna embætti biskups Íslands af þeirri ástæðu einni að hún var og er kona. Af sömu ástæðu hefur líka allt verið lagt í sölurnar innan þjóðkirkjunnar svo halda megi uppi endalausum vörnum fyrir hana. Má þó öllum ljóst vera, sem þekkja biskupsferil hennar, að hún er óheiðarleg og undirförul og algjörlega ófær um að axla þá ábyrgð sem biskupstign fylgir.