Þuríður Harpa Sigurðardóttir, hin ötulli formaður Öryrkjabandalagsins, skrifar fína grein í Fréttablaðið, þar sem hún vekur athygli á hversu ill framkoma ríkisstjórnar, Katrínar Jakobsdóttur og Bjarna Benediktssonar, gagnvart öryrkjum er.
„Enn eitt árið kemur fram fjárlagafrumvarp, uppfullt af vonbrigðum fyrir öryrkja,“ skrifar hún og segir svo: „Enn eitt árið er öryrkjum ætlað að draga fram lífið á engu. Enn eitt árið er litið á öryrkja sem skítugu börnin hennar Evu. Og enn eitt árið túlkar fjármálaráðuneytið lög um almannatryggingar öryrkjum í óhag.“
Þetta er þungur dómur um verk þeirra Katrínar og Bjarna.
„Fjárlagafrumvarpið er öryrkjum svo sannarlega vonbrigði, enn eitt árið. Við erum svo sem orðin vön því. En kannski örlaði á smá von þegar við á síðasta ári, lásum í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, að Ísland ætti að vera land tækifæranna. Og til að svo mætti verða væri þörf á að styrkja sérstaklega stöðu þeirra sem höllum fæti standa. Voru loksins bjartari tímar fram undan fyrir þá sem ekki haf annað milli handanna en örorkulífeyrinn. Kannski þykir ríkisstjórninni hún vera að standa við þessi orð með hækkun örorkulífeyris nú um ríflega átta þúsund krónur fyrir skatta. Og skattalækkunin færir öryrkja á strípuðum bótum alveg heilan fimmhundruð kall. Þessar rétt um níu þúsund krónur duga svona rétt fyrir tveim pizzum á vinsælum stað. Það sér hver maður hvað það þýðir mikið innihaldsríkara og sjálfstæðara líf fyrir öryrkja,“ skrifar Þuríður Harpa.
„Enn eitt árið horfa öryrkjar upp á gjána á milli tekna þeirra og atvinnuleysisbóta breikka,“ skrifar hún og heldur áfram: „Enn eitt árið kýs fjármálaráðherra að hafa að engu 69. gr laga um almannatryggingar, þegar hann kýs að hækka bætur almannatrygginga um rétt ríflega verðbólgu, í stað þess að fylgja launaþróun eins og lögin eru svo skýr um. Og enn eitt árið þurfa öryrkjar að herða gatslitna sultarólina til að reyna að láta enda ná saman. Mikið væri nú gott að sjá stjórnmálamenn standa við orð sín í stað þess að upplifa sömu vonbrigðin á ný, enn eitt árið.“
Það er verk að vinna sem þó er sennilega ófær vegur með jafn kaldlynda ríkisstjórn við völd.