- Advertisement -

Enn og aftur eru aðgerðir Seðlabankans rangar

Marinó G. Njálsson:

Ríkisstjórnin verður að taka þátt í því verkefni með Seðlabankanum en ekki vera brennuvargur sem eykur óstöðugleikann.

Félag leikskólakennara og Félag grunnskólakennara voru að undirrita skammtímasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga. Talsmenn félaganna segja að ekki sé hægt að gera langtímasamning við núverandi efnahagsástand.

Seðlabankastjóri sagði í vikunni, að bankinn væri m.a. að hækka vexti með komandi samninga í huga. Það yrði að fara að gera „ábyrga“ langtímasamninga á vinnumarkaði með stöðugleika hagkerfisins í huga.

Þarna stangast á skoðanir, en ég held að seðlabankastjóri snúi þessu á hvolf. Einstök launþegasamtök eru ekki ábyrg fyrir því að stöðugleiki myndist í hagkerfinu. Sú ábyrgð hvílir á Seðlabankanum (sbr. lögbundna skyldu hans um að viðhalda stöðugleika verðlags og gjaldmiðils) og ríkisvaldinu. Ég er hins vegar alveg viss um, að launþegahreyfingarnar verða fyrstar til að gera „ábyrga“ langtímasamninga, þegar þær telja sig geta treyst því að Seðlabanki og ríkisvaldið nái að viðhalda stöðugleika til lengri tíma.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Óstöðugleiki hefur verið vandi íslenska hagkerfisins, eins lengi og ég man eftir mér. Aðeins á einu tímabili á ævi minnar er hægt að segja að sæmilegur stöðugleiki hafi verið, en hann var samt hálfgert svikalogn og blekking, þar sem samfélagið var enn í sárum eftir afleiðingar óðaverðbólgunnar næstu hátt í 20 ár á undan. Þetta er eftir að þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir árið 1991. Þá gripu nánast tveir menn til sinna ráða og losuðu Seðlabanka og ríkisstjórn úr þeim vanda sem þessar stofnanir höfðu komið þjóðfélaginu í. Vissulegu hefðu fyrirtæki átt að sýna meiri ábyrgð á þessum árum og þá ekki síst fjármálakerfið, en með nánast allt þjóðfélagið í einum höftum eða öðrum, þá lá höfuðábyrgðin hjá Seðlabanka og ríkisstjórn.

Sama er að gerast núna. Ríkisstjórnin ætlar ekki að gera neitt. Seðlabankinn er að bíða eftir að einhver annar geri eitthvað. Landsmenn horfa með undrun í augum á þessar tvær grunnstoðir samfélagsins varpa allri ábyrgð af sér. Er það nema vona, að launaþegahreyfingar treysta sér ekki til að gera langtímakjarasamninga. Þær vita ekki hve langt er í þann stöðugleika sem slíkir samningar gætu byggst á og, af reynslunni, að sá stöðugleiki er ólíklegur til að vara lengi.

…þegar búið er að hækka vextina þrettán sinnum í röð…

Í mínum huga eru aðgerðir Seðlabankans, einu sinni sem oftar, rangar. Þær voru rangar á 8. áratugnum, þegar hér var nánast árlega 40% verðbólga. Þær voru rangar á 9. áratugnum, þegar verðbólga og verðtryggð lán settu allt á hliðina. Þær voru rangar á 10. áratugnum, þegar bankinn nýtti ekki sæmilega stöðugleika til að byggja á til framtíðoar. Þær voru rangar á fyrstu árum 21. aldar, þegar tekin voru upp verðbólgumarkmið án þess að menn vissu hvað það þýddi og losuðu beislið af fjármálakerfinu. Þær voru rangar í aðdraganda hrunsins, þegar bankinn hafði (að því virtist) ekki hugmynd um hvað var að gerast á íslenskum fjármálamarkaði. Þær voru rangar í eftirmála hrunsins, þegar bankinn vissi ekki hvaða leið átti að fara við uppbyggingu þjóðfélagsins. Þær voru rangar um miðjan síðasta áratug, þegar bankinn fór í stríð við gjaldeyrisskapandi greinar. Þær voru rangar í viðbrögðum bankans við heimsfaraldrinum. Og enn eru þær rangar, þegar búið er að hækka vextina þrettán sinnum í röð, en samt sýnir sjúklingurinn ekki merki bata, enda hefur meðalið dregið úr þrótti hans. Það getur verið að stefna bankans hafi í öllum tilfellum verið rétt, en aðgerðir til að framfylgja henni á hverjum tíma skiluðu ekki því sem stefnt var að.

Vilji Seðlabankinn að gerðir verði „ábyrgir“ langtímasamningar á vinnumarkaði, þá verður hann fyrst að sýna fram á, að hann geti skapað og viðhaldið þeim stöðugleika sem er forsenda slíkra samninga. Ríkisstjórnin verður að taka þátt í því verkefni með Seðlabankanum en ekki vera brennuvargur sem eykur óstöðugleikann.

Marinó birti greinina fyrst á eigin á Facebooksíðu. Greinin er birt hér með leyfi höfundar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: