Davíð Oddsson fer ákveðnar fram gegn vísundunum um hlýnun jarðar. Að þessu sinni notar hann meginhluta Reykjavíkurbréfs morgundagsins. Hér á eftir er brot af boðskap ritstjórans í Hádegismóum:
„Í nokkur ár var það helsti óhugnaðurinn, sem náttúran sjálf átti að hafa staðfest, að ísbjörnum á norðurhöfum hefði skyndilega fækkað og ísbangsi væri kominn í bullandi útrýmingarhættu. Og ekkert gæti bjargað bjössa, nema jú gamla góða ráðið að auka framlög til stofnana hrópenda. En svo gerði ísbjössi þann óleik að birtast á ný í fleiri eintökum og gaf grátandi langt nef. Kannski verður næst kannað hvort það gæti hjálpað ísbjörnunum að fjölga einkaþotum ríkisbubba um 20-30 prósent á næstu ráðstefnum, enda fælist í því sterk traustsyfirlýsing kæmu þeir fljúgandi með peningabúntin, og fengju skattafrádrátt þegar heim kæmi.
Lítið snoturt dæmi sást þegar fjallað var um virtan veðurfræðing, sem fylgst hefur með skaflinum í Gunnlaugsskarði á Esjunni, sem stundum „lifir“ af árið og stundum ekki og á veðurfræðingurinn frækni skýrslur um þróun skaflsins. Þær bentu til að litli skaflinn virtist hreyfast nokkuð til á 35 ára tímabili, en yrði á næsta tímabili svipaður því á undan og tilvera hans lítt snortin af hamfarahlýnun. Í 1000 metra hæð varð breytingin engin, hvað sem ráðstefnum leið.
Það mætti í raun spara heiminum mikið fé, ef „global warming“ tilraunin yrði sett á ís, þar sem auðvitað færi best um hana, og heimurinn kæmi sér saman um að einbeita sér næstu 50 árin að skafli Páls á Esjunni. Ef hann haggaðist ekki meira en þetta, mætti áhyggjulaust hætta bröltinu. Þetta yrði ein sögulegasta sparnaðartillaga á heimsvísu, og það sem meira er, hún er eiginlega sjálfsögð.“
Það er og. Afneitunin er algjör.
-sme