„Það fylgir því oft heilmikil sjálfsásökun að vakna upp „vitur eftir á“. Donald Trump hafði, sem forseti fyrstu tvö árin, meirihluta í báðum deildum þingsins og hefði getað nýtt tíma sinn betur en hann gerði. Hann hefði til að mynda getað beitt sér fyrir því að breyta umgjörð bandarískra kosninga í átt við það sem best þekkist annars staðar. En þótt Trump hefði verið svo framsýnn er ekki óhugsandi að flokkur demókrata hefði samt sem áður getað náð að misnota aðstöðu sína í einstökum ríkjum með vísun til kórónuveirunnar. Þeir svifust einskis þegar Trump átti í hlut, eins og galdrafárið um samsæri Pútíns og Trumps sýnir, sem var frá upphafi til enda byggt á samsuðu sem kosningastjórn Demókrataflokksins hafði látið gera og kostaði.“
Þetta er sýnishorn af Reykjavíkurbréfi morgundagsins. Og meira:
„Eftiráspekin bendir einnig til þess að repúblikanar hefðu sjálfir getað brotist inn í leikfléttu demókrata og tryggt með einföldum hætti að kjörfundir stæðu í allmarga daga og væru opnir lengur og engin atkvæði yrðu talin fyrr en öll atkvæði væru komin í hús, eins og gert var á sínum tíma í lok heimsstyrjaldar, t.d. í Bretlandi til að tryggja að fjölmenn herlið þeirra, þá um víða veröld, næðu að kjósa. Sú brjálæðislega aðferð að sturta atkvæðum heim eftir óskum einstaklinga, sem kjörstjórnir þekktu engin deili á, og treysta þeim fyrir kosningum og láta svo safna þeim saman í útboði, er auðvitað einhver ósvífnasti pólitíski leikur sem hægt er að leggja í.
En það er búið og gert. Og þar sem það var ekki fyrr en á lokaspretti að leitað var atbeina dómstóla um vafasama aðkomu, sem Hæstiréttur hafnaði, sitja menn sárir og svekktir uppi með niðurstöðu hans. Þar með verða menn að kyngja því að settur hefur verið punktur. Biden telst því samkvæmt lagabókstafnum réttkjörinn forseti. Hversu lengi sú niðurstaða dugar honum er önnur saga, eins og nýjustu dæmin um afrek hans sýna.“