Skapti Harðarson, formaður Samtaka skattgreiðenda, skrifaði, um margt forvitnilega grein í Mogga dagsins. Hann fjallar meðal annars um Eignarhaldsfélag Seðlabankans.
„Nú tveimur árum eftir slit ESÍ hafa nær engar upplýsingar verið gefnar um starfsemi félagsins, hvort tekist hafi að hámarka virði eignanna, af hvaða eignum var tap, hver kostnaður var við utanumhaldið, hverjir keyptu og svo framvegis. Seðlabankinn, undir forystu Más Guðmundssonar, lofaði skýrslu um starfsemina og átti hún að koma út á síðasta ári. Ekkert bólar á henni en líklega munu fyrrverandi stjórnendur ESÍ, sem jafnframt sáu um að slíta félaginu, skrifa hana sjálfir og svara fáu. Vitað er að stjórnendur ESÍ óskuðu eftir því að vera tryggt skaðleysi vegna starfa sinna. Því var synjað af ráðherra, eftir að á það var bent, en óljóst er hvort Seðlabankinn hafi sjálfur ábyrgst starfsmennina umfram hefðbundna vinnuveitendaábyrgð. Hvað sem því líður vekur óskin áleitnar spurningar.
Þegar þingmenn hafa leitað eftir upplýsingum um starfsemi ESÍ hefur öllum spurningum verið svarað með útúrsnúningum og vísunum í að bankaleynd ríki um hana þó að um hefðbundin einkahlutafélög sé að ræða. Þess var að auki gætt að reikningar ESÍ birtust ekki á vefsíðunni „Opnir reikningar“, sem birtir greidda reikninga ráðuneyta og nánast allra ríkisstofnana, þrátt fyrir að félagið hafi líklega keypt sérfræðiráðgjöf fyrir hundruð milljóna króna á hverju ári.
Þess má geta að ESÍ og eitt dótturfélag þess, Hilda, fengu undanþágu frá upplýsingalögum með bréfi frá forsætisráðuneytinu í lok árs 2015. Undir Hildu voru færðar margar eignir eignaumsýslufélagsins Dróma, þar með taldar um 700 fasteignir sem sömu einstaklingar og stjórnuðu ESÍ sáu um að selja. Þagnarskyldunni hefur óspart verið beitt þegar óskað hefur verið sjálfsagðra svara um ráðstöfun ríkiseigna.“