Enn fær Bjarni á baukinn
- sagður ganga sama skattaveg og Jóhanna og Steingrímur og stjórnin hans sögð vera „meint“ hægri stjórn.
Baklandið í Sjálfstæðisflokknum er ekki síður pirrað en í hinum stjórnarflokkunum tveimur. Hvergi virðist vera logn.
Eitt helsta aðalsmerki Sjálfstæðisflokksins hefur verið skattalækkanir. „Það getur ekki gengið að stjórnvöld finni aldrei röksemdir fyrir skattalækkunum, hvort sem um er að ræða vinstri stjórnir eða meintar hægri stjórnir og hvort sem efnahagsástandið er erfitt eða með allra besta móti. Sé þetta raunverulega viðhorf stjórnvalda, sama hvaðan úr flokkum þau koma, bíða atvinnulífs og almennings aðeins sífellt hækkandi skattar. Sú hefur að mestu verið raunin síðasta tæpa áratuginn, en er ætlunin að bjóða upp á það til framtíðar?“
Þetta skrifar fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson. Það veit það hver maður að flokksmenn líta mjög upp til Davíðs og þess sem hann segir. Honum er tryggingagjaldið hugleiknara en Bjarna Benediktssyni og hans ráðherrum.
„Óskiljanlegt er orðið hvernig á því stendur að stjórnvöld ráðast ekki þegar í að lækka tryggingagjaldið svo um munar,“ skrifar Davíð. „Röksemdin fyrir því að hækka það á sínum tíma var sú að það væri nauðsynlegt vegna erfiðs atvinnuástands. Sú röksemd var vafasöm, enda má fullyrða að þessi og aðrar skattahækkanir vinstri stjórnarinnar urðu til að draga efnahagserfiðleikana eftir fall bankanna á langinn. En þegar slíkri röksemd er teflt fram fyrir að hækka gjald, getur það ekki talist sanngjarnt að atvinnulífið sitji uppi með gjaldið þó að atvinnuleysi sé horfið.“
Þá kemur að sem mestu sviða veldur. Davíð hikar ekki að líkja ríkisstjórn Bjarna, hinni meintu hægristjórn, einsog og það var orðað hér að ofan, við það versta af öllu í minningu hægri manna, þ.e. ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms, hinni tæru vinstristjórn.
„Vissulega hefði ekki átt að þurfa að semja við stjórnvöld um að lækka tryggingagjald, sú lækkun var löngu orðin sjálfsögð og hefði átt að vera liður í verulegum skattalækkunum ríkisstjórnar eftir að hér sat nýverið mesta skattahækkunarstjórn Íslandssögunnar. Sú stjórn, vinstri stjórnin sem sat frá 2009- 2013, gæti raunar sennilega hrósað sigri í skattahækkunarkeppni á alþjóðlegum vettvangi einnig, en það er önnur saga.“
-sme