„…þannig að hægt sé að afstýra hörðum átökum á vinnu-markaði.“
Vilhjálmur Birgisson skrifar:
Ég tek svo sannarlega undir með félaga mínum Ragnari Þór formanni VR að þessar tillögur eru stórt skref í átt að lausn á þessari gríðarlega erfiðu kjaradeilu. Rétt er að geta þess að Ragnar Þór sat í þessari nefnd fyrir okkar hönd og ber svo sannarlega að þakka honum fyrir sitt framlag í þessari vinnu, enda hélt hann hagsmunum okkar í þessari nefnd hátt á lofti.
Þótt þetta sé stórt skerf til lausnar á deilunni þá er enn töluvert í land, enda morgunljóst að fjölmörg önnur atriði til viðbótar þurfa að koma frá stjórnvöldum til að hægt verði að liðka enn frekar fyrir þessum kjarasamningum þannig að hægt sé að afstýra hörðum átökum á vinnumarkaði.
Ég nefni hérna nokkur atriði sem þurfa að koma til viðbótar þessum tillögum í húsnæðismálum:
1. Létta skattbyrði á lág og lægri millitekjuhópum
2. Skerðingarmörk barnabóta hækki og fylgi launaþróun
3. Launafólk fái að ráðstafa 3,5% af samtryggingarhluta i frjálsa séreign til niðurgreiðslu á fasteignalánum eða til útborgunar til húsnæðiskaupa.
4. Unnið verði að afnámi verðtryggingar
5. Tekið verði á okurvöxtum fjármálakerfisins
6. Ábyrgð veði deilt á milli lánveitanda og lántaka með því að setja 2,5% þak neysluvísitölu verðtryggðra húsnæðislána
7. Gróf kjarasamningsbrot verði gerð refsiverð í lögum og sektir heimiluð í lögum.
Þetta eru m.a. nokkur atriði sem klárlega þurfa að koma til að mikilvægt að þessu vinna við stjórnvöld fari á fulla ferð því tíminn er að renna út!