- Advertisement -

Enn er spáð og spekúlerað

Ferðaþjónustan er sem stendur okkar helsta tekjulind. Um leið er hún hörð við okkur, og ekki síst landið okkar. Ferðaþjónustan hefur vaxið hratt á síðustu árum og nú þegar OECD kemur hingað og bendir okkur á hið augljósa er ekki laust við að okkur sé brugðið.

Auðvitað vissum við og vitum að við eigum svo margt ógert til að hægt sé að ætlast til að allt fari vel. Átroðningur, yfirgangur, skipulagsleysi, öryggisleysi, merkingar, náðhús og hvað eina, hefur látið reka á reiðanum. Við vissum þetta allt saman en þegar okkur er bent á þetta eina ferðina enn, bregður okkur við.

Ferðamálaráðherrann sagði í fréttum í gær að sumt að því sem OECD benti á sé einmitt til skoðunar í ráðuneytinu. Við vitum að svo hefur verið í áraraðir, ár eftir ár. Það sem er á borði í ráðuneytinu gagnast ekkert utan þess. Það er meinið.

Það er merkilegt að enn sé ekki búið að taka upp aðgangsstýringar, svo dæmi sé tekið, þar sem hennar er þörf. Alltof fáar ákvarðanir eru teknar. En hvers vegna?

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það er alltaf sama svarið. Hagsmunir einhverja leyfa ekki að gætt sé að því sem mestu skiptir. Hagsmunirnir fárra ráða. Það er ekki hægt að sjálfsögð mál kastist milli ráðuneyta og ráðherra, sem þó sitja í einni og sömu ríkisstjórninni, og ekkert, eða kannski alltof lítið, gerist.

Við komumst ekkert áfram þegar mest er spáð og spekúlerað.

Sigurjón M. Egilsson.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: