„Að bíða eftir réttlætinu er það sem öryrkjar, atvinnulausir og eldri borgarar hafa þurft að gera í áratugi. Mannréttindi, sanngirni, réttlæti og bann við mismunun eru bara orð sem ríkisstjórn eftir ríkisstjórn fer ekki eftir í málefnum þeirra sem verst hafa það í íslensku þjóðfélagi. Hækkun almannatryggingabóta um bara 3,6% um síðustu áramót í núverandi 4,6% verðbólgu sýnir hvernig óréttlæti ríkisstjórnarinnar bitnar á þeim verst settu. Yfir 10% hækkun launa á sama tíma eykur kjaragliðnunina enn frekar og er hún nú um 40% hjá þeim verst settu eftir bankahrunið,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson á Alþingi í dag.
„Biðraðir eftir mataraðstoð lengjast og fjölgar í hópi þeirra sem verða að lifa í sárafátækt.“
Guðmundur bætti við: „Í Covid-19 veirufaraldrinum getur ríkisstjórnin ekki einu sinni sýnt að hún mismuni ekki skjólstæðingum Tryggingastofnunar ríkisins því henni hefur tekist að skilja einn hóp út undan, það eru þeir verst settu meðal eldri borgara okkar. Vill einhver hér inni eða þarna úti í okkar ríka samfélagi reyna að tóra á 230.000 kr. á mánuði eftir skatt, hvað þá á minni fjárhæð en það? Borga leigu á húsnæði, fæði, klæði, mat, lyf og aðrar nauðsynjar og hafa til þess bara 230.000 kr. á mánuði eða minna? Er það sanngjarnt eða réttlátt? Og hvar eru mannréttindin í þessu fjárhagslega ofbeldi? Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda og öllum sem þurfa skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra hluta. Þá skal börnum tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst, segir stjórnarskráin. Börn í sárafátækt, eldri borgarar í sárafátækt, atvinnulausir í sárafátækt og félagsbótaþegar í sárafátækt. Er ekki kominn tími á sanngirni og réttlæti handa öllum, að allir séu jafnir fyrir lögum og njóti mannréttinda og þá ekki síst að börnum sé tryggð sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst?“