„Enn eitt árið verður kjaragliðnun og öryrkjar og eldri borgarar eru skildir eftir. Enn eitt árið og það þriðja í röð verður króna á móti krónu skerðing ekki tekin af öryrkjum eins og hefur verið gert við eldri borgara og enn eitt árið er verið að sparka fjárhagslega í öryrkja. Það er ömurlegt til þess að vita að ár eftir ár séu öryrkjar og eldri borgarar skildir eftir. Allir hafa fengið kjaragliðnun bætta, allir nema eldri borgarar og öryrkjar. Við ættum að spyrja okkur inni í þessum sal: Hvernig í ósköpunum stendur á því að þetta eru einu aðilarnir sem eiga að vera með breiðu bökin og einu aðilarnir sem eiga enn þá, eftir hrunið og allt, að herða sultarólina?“
Það var Guðmundur Ingi Kristinsson sem sagði þetta við atkvæðagreiðslu um fjárlög næsta árs.
Inga Sæland sagði:
„Á síðustu níu árum hefur kjaragliðnun til öryrkja verið hvorki meiri né minni en rétt um 30%. Er það ekki kaldranalegt að eini þjóðfélagshópurinn sem horfist í augu við 30% kjaragliðnun skuli vera sá hópur sem hefur það bágast í samfélaginu? Flokkur fólksins er að leggja hér til ríflegan stuðning. Við viljum að enginn hafi útborguð laun undir 300.000 kr. á mánuði, skatta- og skerðingarlaust. Öll þau mál sem við erum að kalla eftir fjármagni í eru til að reyna að koma til móts við okkar minnstu bræður og systur. En auðvitað væri betra að setja 100 milljónir hér og 200 milljónir þar og 300 milljónir í hitt og þetta. En það sem skiptir máli er að af 22.000 öryrkjum lifa 70% á hungurlús í okkar umboði.“