Marinó G. Njálsson skrifaði:
„En hvaða 5% mörk eru þetta sem reyndustu stjórnmálaskýrendur landsins eru að bulla um?“
Hvaða 5% þröskuld er verið að tala um? Gagnvart kjördæmiskjörnum þingmönnum, þá er ENGINN þröskuldur annar en að vera nógu ofarlega í kosningunum til að ná kjördæmiskjörnu þingsæti. Þannig gæti Ásta Lóa Þórsdóttir alveg átt möguleika á kjördæmiskjörnu þingsæti á Suðurlandi og Miðflokkurinn er í góðri stöðu með að ná inn þremur kjördæmiskjörnum þingmönnum, þ.e. í landsbyggðakjördæmunum, þó svo að Miðflokkur og Flokkur fólksins fengju undir 5% fylgi. Það er nefnilega ekki spurt um fylgi á landsvísu, þegar kjördæmisþingsætum er úthlutað. (Tekið er mið af niðurstöðu Þjóðarpúls Gallups um fylgi í einstökum kjördæmum, en þar væri Ásta Lóa næsti maður inn á Suðurlandi, SDG væri 6. þingmaður NA-kjördæmis (af 9), Bergþór Ólason væri 6. þingmaður NV-kjördæmis (af 7) og Birgir Þórarinsson væri 4. þingmaður Suðurkjördæmis (af 9). Þó svo að Maskína mæli fylgi Miðflokksins lægra en Gallup, þá ættu bæði SDG og Birgir að verða kjördæmiskjörnir.)
En hvaða 5% mörk eru þetta sem reyndustu stjórnmálaskýrendur landsins eru að bulla um? Jú, þetta eru mörkin sem flokkur þarf að fara upp fyrir til að eiga möguleika á jöfnunarþingsæti. Kemur kjördæmiskjörnum þingmönnum ekkert við.
Mér finnst alveg lágmark, þegar menn eru að láta í ljós álit sitt á niðurstöðum skoðanakannana, að þeir þekki kosningalögin. Sérstaklega þegar þeir hafa verið álitsgjafar í fleiri áratugi. Það getur ekki verið svo erfitt að skilja hvað stendur í lögunum.
Skrifin birti Marinó fyrst á Facebooksíðu sinni. Fyrirsögnin er Miðjunnar.