Enn og aftur sér starfsfólk kínverska sendiráðsins ástæðu til að svara Davíð Oddssyni, ritstjóra Moggans.
„Þann 6. júlí síðastliðinn birti Morgunblaðið ritstjórnargrein með titlinum „Eitt ríki, eitt vont kerfi“ þar sem komið var fram með óréttmætar ásakanir og staðreyndir túlkaðar með hlutdrægum hætti, varðandi nýja löggjöf til varnar þjóðaröryggi í Hong Kong. Auk þessa voru settar fram órökstuddar athugasemdir varðandi málefni Hong Kong. Kína harmar sterklega þessi ummæli og lýsir andstöðu við þessa túlkun,“ segir í upphafi langrar greinar sem Le Shuang skrifar fyrir hönd sendiráðsins.
„Hong Kong er hluti af Kína. Málefni Hong Kong eru innanríkismál í Kína. Þessi lagasetning er til að styrkja löggjöf til verndar þjóðaröryggi í einu héraði Kína, og er í fullu samræmi við væntingar íbúa Hong Kong um friðsælt líf, en því hefur verið stefnt í hættu síðasta árið vegna óróa í þjóðfélaginu. Ég vonast til að stofnskrá Sameinuðu þjóðanna verði að fullu virt þar sem sú grundvallarregla er sett fram að virðing skuli ríkja gagnvart fullveldi og að ekkert ríki hafi rétt til að hlutast til um innanríkismál annarra ríkja. Ég vonast einnig til að mönnum auðnist að líta á löggjöfina með yfirveguðum og óhlutdrægum hætti og að það náist að vinna að því langtímamarkmiði að í Hong Kong ríki friður og velmegun,“ segir svo í lok greinarinnar.