Vilhjálmur Bjarnason, Villi Bjarna, skrifaði fínustu grein í Moggann í dag. Hér er seinni hluti greinarinnar:
„Nú hafa nýsnillingar fundið upp nýtt fyrirbrigði, sem er „samfélagsbanki“. Það er alls ekki ljóst hvað snillingarnir eiga við með „samfélagsbanka“. Þó virðist slíkur banki eiga að niðurgreiða lán til útvaldra, en hverra?
Sá er þetta ritar þekkir einn „samfélagsbanka“, sem rekinn hefur verið með miklu tapi á liðnum árum. Fyrirsjáanlegt tap (óhagnaður) „samfélagsbankans“ er um 300 milljarðar. Þessi samfélagsbanki hét Íbúðalánasjóður, en heitir nú ÍL-sjóður, og er skúffufyrirtæki í fjármálaráðuneytinu. Eigið fé Landsbankans dygði vart til að standa undir þessu tapi.
ÍL-sjóður stundar ekki útlán, „samfélagsbankinn“ innheimtir aðeins gömul útlán og greiðir niður tekin lán, þar á meðal lán, sem glæpbrjálaðir menn í bönkum og sparisjóðum veittu.
Fjármálaráðherra hefur leitast við að velta „óhagnaði“ þessa fjármálafyrirtækis yfir á lánveitendur fyrirtækisins, en ef það tekst ekki, þá mun samfélagið sitja uppi með „óhagnaðinn“. Það er renta samfélagsins af bankanum.
Svona hefur nú farið um sjóferð þessa samfélagsbanka, sem kallast nú ÍL-sjóður.
Sennilega er átt við að „samfélagsbanki“ eigi að vera „óhagnaðardrifinn“. Samkvæmt orðanna hljóðan þýðir „óhagnaður“ tap, og það hefur gengið eftir.
Þegar býsnast er yfir óskaplegum „gróða“ fjármálastofnana er sá hagnaður lítið annað en ávöxtun eigin fjár þessara fjármálafyrirtækja. Eigandi hlutafjár í Landsbankanum þarf að fá ávöxtun á það lán, sem hluthafinn veitir bankanum í formi hlutafjár. Eigandinn er jafnframt reiðubúinn til að tapa einhverju af þessu láni, sem kallast eigið fé. Það er eðli hlutafjár.
Því miður er það svo, að rekstrarkostnaður fjármálafyrirtækja er að mestu leyti á framfæri annarra lánveitenda fjármálafyrirtækja, en þeir heita innistæðueigendur.
Fréttamönnum í morgunþáttum útvarpsstöðva er þetta engan veginn ljóst.
Tegundir samfélagsfyrirtækja
Það er alls ekki svo að samfélagsfyrirtæki hafi alltaf verið til ógagns. Til samfélagsfyrirtækja má telja:
- Kaupfélög
- Sparisjóði
- Brunabótafélag Íslands
- Bæjarútgerð Reykjavíkur
Þessi fyrirtæki eru að mestu horfin af yfirborði jarðar. Gagn nokkurra þessara fyrirtækja var eitthvert um hluta starfstíma þeirra.
Í starfsemi kaupfélaga var ákveðin þversögn, þannig að starfsemi þeirra gekk ekki upp. Kaupfélög áttu að greiða framleiðendum hæsta verð, en áttu jafnframt að þjóna öðrum félagsmönnum með því að selja á sem lægstu verði. Afurðasölufélög og neytendafélög gengu ekki upp.
Það voru einungis örfáir sparisjóðir, sem voru einhvers megnugir í lánastarfsemi. Það var glæpbrjálað fólk, sem komst til valda í stórum sparisjóðum, og með þeim nýsnillingar. Þá hættu sparisjóðirnir að vera „samfélagsbankar“ með hóflega arðsemi eiginfjár, og urðu nánast glæpafyrirtæki, sem fóru í greiðsluþrot.
Samfélagið þurfti að bera tjón af Sparisjóðnum í Keflavík. Samfélagið greiddi 25 milljarða til að hægt væri að standa við skuldbindingar vegna innlána í þeim samfélagsbanka.
Brunabótafélag Íslands gt. átti gagnmerka sögu. Skammstöfunin gt. þýðir gagnkvæmt tryggingafélag. Með því var átt við að tryggingatakar voru ábyrgðaraðilar félagsins. Á þá ábyrgð reyndi aldrei þar sem Brunabótafélagið endurtryggði sig fyrir stórum tjónum, enda er ábyrgð tryggingataka óbærileg.
Bæjarútgerð Reykjavíkur varð sjálfbær þegar hætt var með „samfélagsútgerð“.
Misvitrir fasteignasalar
Til viðbótar við snillinga morgunútvarpsins koma misvitrir fasteignasalar. Það sætir undrum hvernig sumir þeirra hafa náð prófum hjá Prófnefnd fasteignasala. Víst er að þeir verstu í stétt fasteignasala geta alls ekki veitt ráðgjöf um lánamál, enda hafa þeir alls ekki réttindi til slíks.
Yfirlýsingar nokkurra fasteignasala um að það eigi að afnema „verðtryggingu“ er í raun beiðni um að lánastarfsemi falli niður. Enginn ódrukkinn einstaklingur lánar fé til 25 ára án þess að fá jafnvirði til baka.
Ekki er víst að fasteignasalar og fréttamenn skilji það. Enda góðmenni að áliti þeirra sjálfra.
Og hvað er samfélagsbanki þá?
Það hefur enginn vís maður útskýrt fyrir mér óskhyggjuna um sjálfbæran samfélagsbanka. Góðverk á annarra kostnað enda ávallt með skelfingu.
Sennilega hefur sagnfræðingurinn Cyril Northcote Parkinson útskýrt sjálfbærni betur en nýsnillingar.
Sagnfræðingurinn sagði á fundi í Reykjavík: Fyrirtæki, sem stofnað er til að skapa atvinnu, verður gjaldþrota. Fyrirtæki, sem stofnað er til að hagnast, mun að auki, ef það hagnast, veita atvinnu til langs tíma og verða sjálfbært.“
Hvað sagði Todda trunta?
„Komið nú konur og menn inní víngarð hans áðuren það er um seinan, komið vegviltu sálir að yfirbótabekknum hér uppivið pallinn og beygið hné yðar fyrir Drotni, áðuren það er um seinan. Því það er of seint að iðrast eftir dauðann þegar eldur helvítis er tekinn að loga í yðar viðbjóðslegu sálarkaunum. Amen. Halelúja.“