Enginn málefnasamningur
„Sjálfstæðisflokkurinn fékk ekkert út úr þessu samkomulagi umfram það sem hann hefði fengið með því að bjóða fram einn, heldur minna.“ „Sósíalistar hafa reynt að fá þessari túlkun breytt, en meirihlutaflokkarnir hafa ekki kippt þessu í fyrra horf.“
Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands, skrifar:
Eftir borgarstjórnarfund á þriðjudaginn var nokkuð um það rætt á samfélagsmiðlum að sósíalistar hefðu boðið fram í nefndir með öðrum flokkum í minnihlutanum. Þetta kom mér á óvart þar sem það er fátítt að flokkar í minnihluta bjóði ekki fram saman við nefndarkjör til að tryggja réttláta skiptingu nefndarsæta milli flokka. Að baki slíku samkomulagi liggur aldrei neitt málefnasamkomulag enda gera minnihlutar ekki með sér málefnasamning. Þetta fyrirkomulag hefur bæði verið haft um nefndarkjör á þing og í sveitastjórnum áratugum saman og því kom mér á óvart að eitthvað athugavert þætti við að sósíalistar í borgarstjórn væru í samfloti með öðrum flokkum í minnihlutanum varðandi nefndarkjör.
Ef minnihlutaflokkarnir hefðu ekki boðið fram saman hefði meirihlutinn fengið fjóra menn í öllum sjö manna ráðum og Sjálfstæðisflokkurinn alla hina þrjá. Sósíalistar, Miðflokkur og Flokkur fólksins hefðu ekki fengið neinn mann kjörin. Það lá hins vegar ljóst fyrir að ef Sósíalistar, Miðflokkur og Flokkur fólksins biðu fram saman myndu þeir ná einum manni af Sjálfstæðisflokknum í hverju ráði. Flokkarnir gerðu því fljótlega eftir kosningar samkomulag um þetta. Þegar það lá fyrir óskaði Sjálfstæðisflokkurinn eftir því að vera með og bauð m.a. Flokki fólksins að skipta á einni nefnd og sáu sósíalistar ekki ástæðu til að setja sig upp á móti því. Sjálfstæðisflokkurinn fékk ekkert út úr þessu samkomulagi umfram það sem hann hefði fengið með því að bjóða fram einn, heldur minna.
Það er því í meira lagi rangt að stilla því svo fram að sósíalistar hafi verið að auka veg Sjálfstæðismanna í borgarstjórn með því að bjóða fram með öðrum minnihlutaflokkum. Þvert á móti leiddi samkomulag sósíalista við Miðflokk og Flokk fólksins til þess að Sjálfstæðisflokkurinn fékk minna.
Samkomulag sósíalista, Miðflokks og Flokks fólksins gat hvorki náð til borgarráðs né skipulags- og samgönguráðs því það var túlkun borgarstjórnar að þegar einn af þeim lista yrði kjörinn væru hinir flokkarnir að afsala sér áheyrnarfulltrúa í þessum ráðum. Sósíalistar hafa reynt að fá þessari túlkun breytt, en meirihlutaflokkarnir hafa ekki kippt þessu í fyrra horf. Það er því vegna afstöðu meirihlutans sem það sitja þrír fulltrúar frá Sjálfstæðisflokknum í borgarráði og skipulags- og samgönguráði en enginn fulltrúi frá sósíalistum, Miðflokki eða Flokki fólksins.
Þær breytingar sem meirihlutinn, sem féll í kosningunum, gerði á samþykktum borgarstjórnar í apríl drógu úr aðgengi minni flokka til borgarkerfisins. Þær virðast hafa miðað að því að auka vald meirihlutans og stærri flokka. Til að vega upp á móti þessu gerðu sósíalistar þrennt frá kosningum og fram að fyrsta borgarstjórnarfundi. 1. Gerðu samkomulag við minni flokkana í minnihlutanum um sameiginlegt framboð í ráð og nefndir (sem Sjálfstæðisflokkurinn varð síðar aðili að). 2. Reyndu að fá hnekkt túlkun borgarstjórnar svo litlu flokkarnir gætu náð inn einum manni í borgarráð og öðrum í skipulags- og samgönguráð. 3. Lögðu fram tillögu um breytingar á samþykktum borgarstjórnar til að draga til baka ólýðræðislegar breytingar hins fallna meirihluta.
Þessar tillögur snúa að því að styrkja lýðræðið í borgarstjórn, auka gegnsæi og tryggja að kjósendur allra flokka hafi jafnt aðgengi að borgarkerfinu í gegnum fulltrúa sína. Þetta eru tillögur sem miða að því almennt að styrkja starf borgarstjórnar. Allir flokkar ættu að geta lagt málefnaágreining sinn til hliðar og vinna að þessum lýðræðisumbótum. Vonandi verður svo á endanum.
Þetta var hugsunin á bak við samstarf minnihlutaflokkana varðandi nefndarkjör. Það snerist aðeins um að tryggja öllum flokkum eins réttláta skiptingu á setu í ráðum og nefndum og mögulegt var innan kerfis sem því miður er óréttlátt og miðar að því að auka völd og áhrif meirihlutans og stærri flokka á kostnað hinna smærri.