„Ég hef oft velt fyrir mér afhverju má ekki selja áfengi í venjulegri búð á Íslandi. Í Kaupfélagi Steingrímsfjarðar er gengið inn um sama innganginn til að kaupa mat og áfengi. Þegar staðið er við kassann í kaupfélaginu blasir ríkið við. Það var enginn fullur í Kaupfélagi Steingrímsfjarðar þegar ég var þar á dögunum,“ sagði Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður, í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni í gær, þegar rætt var um hvort leyfa eigi sölu áfengis í matvöruverslunum. Tilefni umræðunnar var Costco og hvort það fyrirtæki opni hér á landi og hugsanlegar breytingar á verslunarháttum.
Þóra Guðmundsdóttir, varaformaður Neytendastamtakanna, sagðist alfarið á móti að áfengi verði selt í matvöruverslunum. Núverandi fyrirkmulag segir hún vera gott. Hldur Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn, segist ekki sjá hvers vegna fólki sé ekki treyst til að umgangast áfengi í matvöruverslunum. Rétt einsog annað. Hún benti á að fleira sé hættulegt en áfengi, til að mynda snakk.
„Við eigum að forðast höft og leyfa einstaklingnum að ráða sér sjálfur. Ég er til dæmis á móti að banna að tóbaksauglýsingar. Mér finnst að tóbaksframleiðendum verði gert að auglýsa hvaða áhrif reykingar geta haft á mannslíkamann,“ sagði Sigurður G. Guðjónsson.