- Advertisement -

„Enginn er frjáls og óháður sem hatar“

Fyrir það fyrsta fær enginn þessa styrki nema sótt sé um þá.

„Það er annað hvort af vanhugsun/þekkingu eða af illum hug sem menn dreifa hér færslu blaðamanns Stundarinnar eins og enginn sé morgundagurinn,“ skrifar Kristinn Karl Brynjarsson aldeilis ósáttur með fréttaskýringu Jóhanns Páls Jóhannssonar.

„Færslan eða megin tilgangur hennar er að koma höggi á utanríkis og fjármálaráðherra vegna svokallaðra uppsagnarstyrkja. Í færslunni er því haldið fram að Bláa Lónið sem maki utanríkisráðherra á afar lítinn hlut í og Kynnisferðir sem fjölskylda fjármálaráðherra eiga stóran hlut í fái hundruð milljóna úr ríkissjóði bara við það eitt að segja upp fólki. Af þeim sökum þurfi að huga að hæfi ráðherra vegna aðgerða sem þessara,“ skrifar Kristinn Karl.

Hann heldur áfram og best er að fylgja honum allt til enda greinarinnar: „Fyrir það fyrsta fær enginn þessa styrki nema sótt sé um þá. Tæpum sólarhring frá samþykkt lagana er vitanlega enginn búinn að sækja um og því er ekki hægt að fullyrða líkt og blaðamaðurinn gerir að ofangreind fyrirtæki sæki um eða fái þessa styrki.

Þú gætir haft áhuga á þessum

En kannski eru leyfð frávik frá siðareglum blaðamanna á Stundinni ef blaðamenn eru í spreng með að ata auri á Sjálfstæðisflokkinn. Nú eða kannski sem ekki er ósennilegt, er umfjöllun um Sjálfstæðisflokkinn og það sem mögulega gæti tengst honum óháð hversu langsótt það er undanþegin öllum siðareglum og eðlilegu staðreyndatjekki.

Hvað hæfi ráðherra eða annarra þingmanna varðar til þess að fjalla um þessa lagasetningu varðar, þá er það auðvitað án vafa fyrir hendi enda um almenna löggjöf að ræða þar sem allir sem mögulega gætu þurft fara þá leið sem lögin boða þurfa að uppfylla nákvæmlega sömu skilyrði.

Kallar blaðamaður Stundarinnar kannski eftir því að ríkisstjórn og þing verði metin vanhæf næst þegar lögum Íbúðalánasjóð eða öllu heldur Húsnæðis og mannvirkjastofnun verður breytt næst? Enda hljóta ráðherrar og þingmenn að vera vanhæfir þar sem þeir eiga jú flestir húsnæði og eru jafnvel með gömul Íbúðasjóðslán áhvílandi á því.

En í stuttu máli þá eru þessi skrif blaðamannsins fullkomið rugl og þvæla. Annað hvort sett fram af vankunnáttu, valkvæðri eða ekki eða bara af illum hug og hatri.

Munum það að það er enginn frjáls og óháður sem hatar!“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: