Tekist er á um skipulagið við Hafnartorg. Á borgarráðsfundi í gær sagði Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins:
„Það er augljóst á gagnbókun meirihlutans við þessum lið sem er afgreiðsla tillögu Flokks fólksins um umbætur á svæði Geirsgötu og Kalkofnsvegar móts við Hörpu að meirihlutinn leggur allt í sölurnar til að strípa miðbæinn af bílum og þar með því fólki sem kemur akandi á þetta svæði. Tillagan var felld. Segir í gagnbókun þeirra að til að skapa mannvæna borg verður að gera gangandi og hjólandi hátt undir höfði. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill nefna að það er engin bær ef ekki er þar fólk, nema þá bara draugabær. Gera þarf öllum jafn hátt undir höfði og sjá til þess að draga úr töfum allra sama hvaða ferðamáta þeir nota. Tryggja þarf einnig öryggi allra eins og hægt er án tillits til ferðamáta. Meirihlutinn og skipulagsyfirvöld hans virðast hins vegar gera í því að viðhalda umferðarteppu og gera akandi eins erfitt fyrir og mögulegt er til að halda þeim frá bænum. Halda mætti að það væri ásetningur meirihlutans að útiloka akandi fólk, fólk sem býr í efri byggðum, er utan af landi og verður að nota bíl sinn til að komast langar leiðir þar með til að sinna erindum eða vinnu í bænum. Þetta er upplifun borgarfulltrúa Flokks fólksins.“
Fulltrúar meirihlutans bókuðu: „Til þess að skapa mannvæna borg og styrkja fjölbreytta ferðamáta er grundvallaratriði að gera gangandi og hjólandi hátt undir höfði. Tillögur Flokks fólksins miða flestar að því sama, að auka „flæði“ bílaumferðar á kostnað gangandi og hjólandi. Við erum ósammála þeirri hugmyndafræði.“
Hér munar miklu á sjónarmiðum. „Fólk í Flokki fólksins gengur líka og hjólar og sumir eru hreyfihamlaðir og í hjólastól. Allir þurfa að komast leiðar sinnar og hver og einn ákveður sjálfur eftir þörfum og vilja hvernig hann ferðast um. Allar tillögur Flokks fólksins miðast að því að minnka tafir fyrir alla og vill að meirihlutinn sýnir öllu fólki sömu virðingu óháð því hvernig það velur að ferðast eða þarf að ferðast,“ bókaði Kolbrún.