Og hvar er stuðningurinn við leigjendur? Öryrkja? Fátækt eftirlaunafólk og aðra fátæka?
Gunnar Smári skrifar:
Fyrstu viðbrögð við fundinum í Hörpu: Ríkisstjórnin er ekki að ná hver vandinn er. Hvar eru gjaldeyrishöftin gagnvart hinum ríku? Gengishagnaðaskatturinn? Auðlegarskattur? Það þarf að tryggja réttlæti. Og hvar er stuðningurinn við leigjendur? Öryrkja? Fátækt eftirlaunafólk og aðra fátæka? 40 þús. kr. á barn er nánast ekki neitt, margar barnafjölskyldur hafa þegar tekið á sig miklu meira tekjufall en þetta. Heildarhugmyndin virðist vera að veita svo til alla aðstoð til fyrirtækja og eigenda þeirra. Það sést strax á hækkun hlutabréfaverðs, braskararnir nota aukin lán til að pumpa upp verð á hlutabréfum sem er vel þekkt afleiðing af svona aðgerðum, nokkuð sem allir vita. Þess vegna á ekki að láta fyrirtækin fá aðstoðina heldur fólk, fjölskyldur, samfélagið sjálft.
Tillaga: Ráðherrarnir taka á sig tekjufall, fara á sömu kjör og fólk sem mun fallast á skert starfshlutfall. Ráðherralaun fara þá úr 2 m.kr. plús niður í tæp 700 þús. kr. Það sama gildir um stjórnendur allra þeirra fyrirtækja sem þiggja fjárhagsaðstoð samkvæmt þessum aðgerðum. Við má nota ríkið til að bjarga samfélaginu en ekki til að verja tekjuskiptingu kapítalisma, sem nú er fallinn.
Með því að ætla að nota séreignasparnað til að lina áfallið sem almenningur verður fyrir er verið að veita hinum betur settu meiri stuðning en hinum verr settu. Það er siðlaust. Þau verr settu eiga miklu minni séreignarsparnað en hin betur settu, sum ekki neitt. Þú getur ekki lagt fyrir þegar þú átt ekki fyrir mat út mánaðamótin.
Gjafabréf til að ferðast innanlands! Eruð þið að grínast? Þetta verður ekki stuðningur við fólk. Ég spái að þetta sé planið: Vegna minni eftirspurnar fellur verð á hótelherbergi úr 20 þús. kr. á mánuði í 10 þús. kr. Ríkið mun þá senda út afsláttarmiða, þannig að hótelið heldur áfram að rukka 20 þús. kr. en gestirnir borga með 10 þús. kr. greiðslu og svo 10 þús. kr. inneign. Almenningur er því í nákvæmlega sömu stöðu en ríkið styrkir hótelið til að halda uppi sama verði og var þegar það var fullbókað. Það er miklu nær að lánardrottnar sjái um þessa aðlögun að breyttum markaðsaðstæðum, taki á sig tap vegna tapaðra lána svo fyrirtækin geti staðist í verri markaðsaðstæðum. Og er þetta aðgerð sem tryggir jöfnuð allra gagnvart farsóttinni? Ó, nei. Hin fátækari hafa engan kost á að keyra hringinn í kringum landið til að sækja afsláttinn sinn. Eins og með séreignasparnaðinn er þetta ójafnaðaraðgerð.