„Hefur það komið til tals innan ríkisstjórnarinnar að segja upp þessum samningi? Jafnframt vil ég spyrja hæstvirtan fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins hvort það komi til greina af hálfu Sjálfstæðisflokksins að fara í þá vegferð að segja upp þessum tollasamningi,“ spurði Jón Steindór Valdimarsson Viðreisn Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra. Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknar hefur opnað á uppsögn samningsins.
„Á þessari stundu hefur engin ákvörðun verið tekin um að segja upp þessum samningi af okkar hálfu. Ég tel að það ætti miklu frekar að tala um að reyna að endursemja og reyna að bregðast við því sem breytt er frá því að samningurinn var gerður. En í augnablikinu er eingöngu um að ræða óformlegt samráð við alla hagsmunaaðila,“ sagði Bjarni.