- Advertisement -

Engar skyndilausnir til vegna ástandsins á Landspítalanum

-landlæknir hraðar úttekt á sjúkrahúsinu. Engar tilkynningar um alvarleg atvik þrátt fyrir hið bága ástand sem ríkir á Landspítalanum.

„Ekki eru til neinar skyndilausnir varðandi ástand sem virðist hafa farið versnandi um ákveðinn tíma. Landspítalinn varðar okkur öll og því mikilvægt að samstaða náist um hvernig unnt sé að sporna við óheillavænlegri þróun,“ segir meðal annars í svari embættis landlæknis við spurningum okkar vegna þess ástands sem ríkir á Landspítalanum.

Á laugardag birti Miðjan frétt um ástandið á Landspítalanum.

En eru dæmi  um ótímabæran dauða vegna ástandsins nú, eða hefur ekki hafi verið unnt að veita veiku fóli eða slösuðu, nauðsynlega þjónustu, þannig að skaði hafi hlotist af?

„Embættinu hafa ekki borist upplýsingar um alvarleg atvik á síðustu vikum er tengja má umræddu ástandi. Hins vegar er ljóst miðað við erlendar rannsóknir að mikið álag, mannekla og skortur á legurýmum getur haft áhrif á öryggi sjúklinga og leitt til atvika,“ segir í svarinu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

 En hvað getur landlæknir gert?

„Landlæknir hefur þegar brugðist við með hlutaúttekt þar sem ákveðnum gögnum er safnað, þau rýnd og tillögur til úrbóta settar fram. Vegna alvarleika málsins er þessari úttekt hraðað eftir mætti. Tillögum um úrbætur/lausnir kann að verða eftir atvikum, beint annars vegar til velferðarráðuneytisins og hins vegar til Landspítala.“

Er hægt að loka sjúkrahúsi, að hluta, þegar það veldur ekki hlutverki sínu, eða hvað getur embættið gert?

„Augljóst má vera að ekki er unnt að loka Landspítalanum sem hefur einstöku hlutverki að gegna í íslensku heilbrigðiskerfi; sjúkrahús sem er einn af burðarstólpum íslenskrar heilbrigðisþjónustu. Þeim mun mikilvægara er að slíkt sjúkrahús geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Einnig má benda á að þeir tveir þættir sem vega þyngst í þessu ástandi, þ.e. að erfiðlega gengur að útskrifa fjölda fólks sem lokið hefur meðferð á sjúkrahúsinu svo og hjúkrunarfræðingaskortur eru mun flóknari en svo að Landspítalinn einn geti séð um að koma með lausn á þeim.“

 „Eins og áður sagði þá leggur Embætti landlæknis mat á það ástand sem skapast hefur í framangreindri úttekt og að því loknu mun embættið leggja fram tillögur til úrbóta. Rétt er að benda á að ekki eru til neinar skyndilausnir varðandi ástand sem virðist hafa farið versnandi um ákveðinn tíma. Landspítalinn varðar okkur öll og því mikilvægt að samstaða náist um hvernig unnt sé að sporna við óheillavænlegri þróun.“

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: