Fréttir

Engar fundargerðir, engir minnismiðar

By Miðjan

February 12, 2016

STJÓRNMÁL „Algjör leyndarhyggja ríkti um samskipti ríkis og borgar vegna samkomulags sem undirritað var 25. október 2013 um Rögnunefndina og framtíð Reykjavíkurflugvallar,“ segja borgarfulltrúar minnihlutans í borginni, í sameiginlegri bókun.

„Svar við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins staðfestir að engar fundargerðir voru skrifaðar um fundi borgarstjóra eða formanns borgarráðs annars vegar og innanríkisráðherra hins vegar í aðdraganda samkomulagsins. Engin minnisblöð hafa varðveist. Ekkert virðist hafa verið gert til að fullnægja lágmarkskröfum um eðlilega stjórnsýslu. Ekki er einu sinni hægt að upplýsa hversu margir fundir voru haldnir vegna þessa og ljóst af því að farið var með þetta mál eins og hvert annað einkamál. Vinnubrögð af þessu tagi eru ekki boðleg. Af þessu má sjá að rík ástæða er til þess að setja ákveðnar og skýrar reglur um upplýsingagjöf til borgarráðs af fundum sem borgarstjóri og formaður borgarráðs eiga við ráðuneyti og opinberar stofnanir. Slík upplýsingagjöf á að vera öllum borgarbúum aðgengileg,“ segir í bókuninni.

Í Sprengisandi, síðastliðinn sunnudag, voru Halldór Halldórsson, oddviti minnihlutans, og Dagur B. Eggertsson brogarstjóri voru sammála um að of lítill gaumur hafi verið gefinn að Hvassahrauni í niðurstöðum Rögnunefndarinnar svokölluðu.