Svanur Kristjánsson rekur hér tengsl forsögu verkalýðshreyfingarinnar við bindindishreyfinguna, sem var kveikjan að félagslegri uppbyggingu almennings fyrir og um þar síðustu aldamót (ungmennafélögin, kaupfélögin, lestrarfélögin o.s.frv.), og kvennahreyfingunni, sem barðist fyrir kosningarétti kvenna og almennum kosningarétti og kvenréttindum. Svanur segir að þarna hafi legið andlegt inntak verkalýðshreyfingarinnar sem breiðrar mannúðarhreyfingar.
Eftir fyrra stríð segir hann að þetta inntak hafi horfið; verkalýðshreyfingin hafi lagt niður áherslur á kvenréttindi og orðið karlæg stofnun og með áfengisbanninu hafi horfið úr hreyfingunni áhersla á almenna mannrækt. Þetta var ekki góð þróun að mati Svans en hann upplifir endurreisn verkalýðshreyfingarinnar nú sem endurreisn mannúðar- og mannréttindahreyfingar sem skilgreinir hlutverk sitt sem baráttutæki almennings fyrir réttlátu samfélagi, samfélagi sem byggt verði upp af hagsmunum fjöldans.
Þetta og fleira í viðtali við Svan Kristjánsson í Öðru Íslandi.