Segir engar rannsóknir sýna ágætis í endurheimt votlendis.
„Stefna meirihlutans í Reykjavík er að viðhalda og hreyfa ekki við mýrum og öðru votlendi. Engar rannsóknir hafa sýnt fram á að endurheimt votlendis auki kolefnisbindingu. Hér er lagt til að leggja fram 150 milljónir í endurheimt votlendis á þessu svæði,“ bókaði Vigdís Hauksdóttir á borgarráðsfundi.
Samþykkt var að verja 150 milljónum meðal annars til að endurheimta votlendi í Úlfarsársdal.
„Borgarfulltrúi Miðflokksins fagnar því að hreinsa eigi svæðið af rusli og að girðingar verði fjarlægðar. Það eru sannarlega góð umhverfismál.“
Sem fyrr er langt á milli Vigdísar og meirihlutans í borgarstjórn: „Endurheimt votlendis er umhverfislega mikilvægt verkefni. Fjöldi rannsókna sýnir einmitt að endurheimt votlendis auki bindingu kolefnis þótt endurheimt þess færist eingöngu að takmörkuðu leyti inn í loftslagsbókhald,“ segir í bókun meirihlutafulltrúanna í borgarráði.
Vigdís var ekki hætt: „Talið er að einhver losun hljótist af uppmokstri á mýrarsvæðum og bent er á að Reykjavíkurborg stendur fyrir mikilli röskun í Vatnsmýrinni með ómældum áhrifum á lífríki og verndun votlendissvæða. Nú þegar eru komin fram staðbundin áhrif á Hlíðarendasvæðinu. Reykjavíkurborg ætti að líta sér nær þegar kemur að þessum málum og stöðva nú þegar röskun Vatnsmýrarinnar.“
„Varðandi Vatnsmýrina er þegar búið að skilgreina friðland í hluta hennar þótt vissulega sé verið að byggja fjölda íbúða í nágrenninu. Það er gert til þess að minnka vegalengdir milli heimilis og vinnu og minnka þannig kolefnisspor samgangna,“ segir í bókun meirihlutans.