Heiðveig María Einarsdóttir skrifar: Miðað við atburðarás síðustu vikna er ég enn vissari en nokkru sinni fyrr að ákvörðun mín um að bjóða fram lista til stjórnar í Sjómannafélagi Íslands sé hárrétt og í raun virkilega þörf. Þrátt fyrir þyrnum stráða leið er ég handviss um að við sjómenn mætum sameinaðri en nokkru sinni fyrr og betur undirbúin en nokkurn tímann áður í næstu samninga á komandi ári. Ég mun halda áfram að beita mér fyrir því að svo geti orðið og mun ekki gefast upp.
Ég fagna því að félagar mínir í SÍ hafi sent inn kröfu um Félagsfund nú í gær. Staðan er vissulega undarleg og algjörlega fordæmalaus en það breytir því ekki að akkúrat núna þá er það mikilvægara en nokkru sinni fyrr að standa saman. Þá ekki bara við félagar í Sjómannafélagi Íslands heldur allir sjómenn fyrr og síðar.
Undarleg þögn félagsins við kröfunni um Félagsfund vekur kannski upp enn fleiri spurningar um framhaldið en breytir því ekki að gefnir frestir í kröfunni verða senn að líða áður en næstu skref eru ákveðin – og það eru fleiri möguleikar í stöðunni. Það er hins vegar á kristaltæru að félagar í Sjómannafélagi Íslands verða að halda áfram að endurheimta félagið sitt og gera þessari stjórn alls ekki þann greiða að fara úr félaginu á þessum tímapunkti.
Uppgjöf er ekki í boði!