- Advertisement -

„En það er sennilega til of mikils ætlast“

Sólveig Anna skrifar: Á sama tíma og Reykjavíkurborg getur á fjórum árum lagt út 3 milljarða í ráðgjafar og hönnunarþjónustu borgar hún leiðbeinendum á leikskólum borgarinnar svo lág laun að Eflingar-meðlimir sem vinna við þessi störf eru með lægstu heildarlaun félagsmanna eða 358 þúsund krónur á mánuði að meðaltali. Þessi hópur upplifir jafnframt mest álag í starfi samkvæmt glænýrri kjarakönnum Eflingar. Leiðbeinendur á leikskólum eru jafnframt lang ósáttastir með laun sín þar sem 8 af hverjum 10 eru mjög eða frekar ósáttir, samkvæmt sömu könnun.

Reykjavíkurborg gæti kannski sett einhverjar milljónir í finna út hver kynja-hallinn er í þessum veruleika sem hér birtist okkur, þar sem ráðgjöf og hönnun er greinilega verðlögð mjög hátt en menntun og gæsla barna verðlögð nokkuð lágt, ef svo má að orði komast? Ég er ekki með neina útpælda hugmynd um hvernig það yrði gert en það væri kannski hægt að skoða hversu margir karlar fengu hlutfallslega hversu mikið af pening fyrir að ráðgefa og hanna vs. hversu margar konur fengu hlutfallslega hversu mikinn pening á sama tíma við að líta eftir ungviðinu í leikskólunum svo að hjól alls atvinnulífsins, líka ráðgjafar og hönnunar-atvinnulífsins (sem og borgar-stjórnmála-atvinnulífsins) gætu haldið áfram að snúast og snúast? Svo væri mögulega hægt að nota niðurstöðurnar til að komast að því að tímabært væri kannski að hækka laun kvennastéttarinnar sem með vinnu sinni heldur reykvíska leikskólakerfinu uppi og uppsker ekkert fyrir nema fjárhagsáhyggjur og þá staðreynd að hún er lang-neðst í efnahagsútreikninga-stigveldi Reykjavíkurborgar? En það er sennilega til of mikils ætlast. Ekki vill borgin fara á undan með góðu fordæmi þegar kemur að því að tryggja efnahagslegt sjálfstæði útivinnandi kvenna? Hverskonar femínismi væri það nú eiginlega?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: