Hjá Heiðveigu Maríu Einarsdóttur, sjómanni og lögfræðingi, vöknuðu nokkrar spurningar eftir að hún hafði rennt yfir dóm Hæstaréttar þar sem rétturinn dæmdi tveimur útgerðum í vil, vegna veiðiréttar á makríl.
Heiðveig María spyr sig hvort miðað sé við að aflaverðmæti makríls hafi virkilega verið 118 krónur, eins og byggt er á í dómnum.
„Réttast væri að byrja að vinna þetta þaðan og út frá þeim gögnum – þá með því að bera einfaldlega saman hvernig var gert upp hjá þessum útgerðum á þessum tíma. Ég þykist nokk viss um að uppgjörs verð til sjómanna var ekki 118 krónur,“ skrifar hún.
„Það ætti líka að vekja athygli skattyfirvalda að mögulega hafi milliverðlagningar ákvæði tekjuskattslaga verið brotið þarna. Sú niðurstaða ætti þá að leiða af sér grunn til þess að byggja leiðréttingarkröfu á.“
Sem sagt, hafi skiptaverð til sjómanna verið lægra en þær 118 krónur sem útgerðin bar á borð Hæstaréttar, eigi sjómenn kröfu til þess sem á milli ber.
„Fyrir utan það að við fyrstu sýn virðist Hæstiréttur virða að vettugi markmið og aðalgrein laga um fiskveiðistjórnun – sem er annað sjónarmið að skoða út af fyrir sig.“
Þarna er átt við fyrstu grein laga um stjórn fiskveiða:
„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“