- Advertisement -

Embættismannastjórn við völd

Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins og nú ritstjóri Morgunblaðsins, er ekki sáttur með fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Hann notar Staksteina til að segja skoðun sína, sem er í raun mjög einföld og ákveðin:

„Nýkynnt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2018- 22 ber með sér að embættismenn en ekki stjórnmálamenn móti stefnuna í ríkisfjármálunum um þessar mundir.“

Enginn efast um þekkingu Davíðs á hvernig unnið er innan stjórnkerfisins. Hann er viss, embættismenn hafa tekið völdin. „Þessi áætlun – 5 ára áætlun, nema hvað – fjallar til að mynda með afar sérkennilegum hætti um skattamál,“ skrifar hann.

Davíð er og hefur verið talsmaður skattalækkanna. „Ekki er langt síðan skattar hér á landi voru hækkaðir af miklum móð.“ Hann skrifar: „Samkvæmt áætluninni er áhugi þeirra sem hana leggja fram á að lækka skatta í besta falli afar takmarkaður. Þar er þess vegna kafli sem fjallar um „Umbætur á skattkerfinu“ en enginn um lækkun skatta.“

Og hverjar verða umbæturnar? „Umbæturnar eru þær að hækka skatta á ferðaþjónustuna og að lækka almenna virðisaukaskattsþrepið sem nemur þeim auknu tekjum sem þannig eiga að koma í kassann, eða úr 24% í 22,5%. Svo verður kannað „hvort rými sé fyrir lækkun niður í 22%,“ eða um hálfa prósentu til viðbótar. Þá verður „litið til þess“ að lækka tryggingagjald, en aðeins „eftir því sem svigrúm verður til“. Hvernig má það vera að ríkisstjórnin stefni ekki að neinum raunverulegum skattalækkunum fram til ársins 2022?“

Nú er að sjá hvort ráðherrarnir svari Davíð.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: