„Ég er kominn á eftirlaun. Sem er kannski eðlilegt eftir því sem aldurinn færist yfir. Það er ákveðið áfall fyrir venjulegt fólk, ekki bara að hætta að vinna heldur er eiginlega ekki hægt að lifa á eftirlaunum á Íslandi,“ skrifar Ingi Bæringsson.
„Ég hef verið duglegur strákur, unnið mikið og borgað í lífeyrissjóði. Það bara breytir engu. Þegar TR og skatturinn er búinn að taka sitt þá fæ ég 116 þúsund á mánuði frá TR. Venjulegt fólk sem borgar í lífeyrissjóði allt sitt líf á ekki séns. Þetta kemur kannski engum við, allavega ekki stjórnmálamönnum. En það sem svíður kannski mest er að fólk sem er á vinnumarkaði núna virðist ekki gera sér grein fyrir að þau eldast líka. Kannski eiga börnin mín eftir að lenda í þessari stöðu.“
Eðlilega er Ingi ósáttur: „Það er enginn aðili í samfélaginu sem lætur sig þetta varða, ekki stjórnmálamenn, ekki verkalýðsfélög, enginn berst fyrir þennan hóp. Við höfum atkvæðisrétt (ennþá) og sennilega er eina vonin fyrir venjulegt fólk að kjósa sósíalista í næstu kosningum. Það er nefnilega þannig að ef að flokkarnir sjá á eftir atkvæðum þá eru þeir fljótir að stökkva á vagninn og þora ekki að vera á móti því sem þeir halda að gefi þeim kannski áframhaldandi völd,“ skrifar Ingi og bætir við:
„Bara svona til þess að fyrirbyggja misskilning þá fæ ég líka frá lífeyrissjóðunum. Skerðingar þjóna þeim tilgangi að halda fólki sem á ekki mikið, í fátæktargildru.“
Í dæmi Inga, sem og annarra, kemur glöggt fram að Tryggingastofnun hirðir lífeyrissjóðsgreiðslur af fólki. Hvers vegna? Jú, vegna þess að það er vilji stjórnmálafólks.
Ingi skrifaði einnig:
„Það var maður að kvarta hérna á FB yfir því að hafa fengið lyftiduft innum póstlúguna hjá sér. Þingmaður. Ég hef ekki mikið verið að fjalla um mín persónulegu mál hérna, mig langar samt að nefna smáræði. Sem er náttúrulega ekki eins mikilvægt og lyftiduft þingmannsins. Í Hverjum mánuði fæ ég innum póstlúguna hjá mer staðfestingu á að ég get ekki lifað af eftirlaununum mínum. Að ég geti ekki notið þeirra réttinda að geta búið í eigin húsnæði. Þingmaðurinn getur ekki á heilum sér tekið af vandlætingu yfir að fá lyftiduft einu sinni innum lúguna hjá sér. Ég fæ minn skammt það sem ég á eftir ólifað. Ekki að það skipti máli í hinu stóra samhengi…“