- Advertisement -

Elías er maður ársins

Hann bregst við til varnar náttúrunni sem nýtur aldrei vafans þegar frek peningaöflin eru annars vegar.

Katrín Oddsdóttir skrifar á Facebook:

Ég las frétt í dag um Elías S. Kristinsson sem stillti sér upp fyrir framan beltagröfu á Ófeigsfjarðarvegi á þriðjudag og stöðvaði þannig framkvæmdir VesturVerks.
Elías telur að VesturVerk geti ekki hafið framkvæmdir á meðan deilt er um eignarhald á landi á vatnasvæðinu þar sem á að virkja.
Elías er að mínu mati maður ársins. Hann bregst við til varnar náttúrunni sem nýtur aldrei vafans þegar frek peningaöflin eru annars vegar. Það er löng og ógeðfelld hefð fyrir því á Íslandi að æða af stað með vélar þegar umhverfisspjöllum er mótmælt svo það verði ógerningur síðar hægt að hætta við ef um ólögmæti er að ræða, skaðinn skeður.
Langafi minn vildi eitt sinn virkja Gullfoss. Sigríður Tómasdóttir í Brattholti sagðist myndi henda sér í fossinn við fyrstu skóflustungu. Fossinn fékk frið. Ætli við þurfum að spyrja okkur að því í dag hvor hugmyndin hafi verið „verðmætari“ vernd eða virkjun?
En nú er kominn tími til að hætta að tala um fjárhagsleg verðmæti þegar náttúran á í hlut. Hún á okkur ekki við hana og við verðum að vakna til vits um það hvernig við getum þjónustað dreifðar byggðir án þess að fórna henni.
Í nýju stjórnarskránni er að finna öflugustu náttúruverndarákvæði sem ég hef lesið á íslenskri tungu. Þar er til dæmis talað um rétt náttúrunnar sjálfrar.
Set þessa grein hér með ósk um það að við fáum nýja stjórnarskrá og að sem flestir taki sér Elías og Sigríði til fyrirmyndar.

„33. gr. Náttúra Íslands og umhverfi

Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Öllum ber að virða hana og vernda.

Öllum skal með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni, ómenguðu andrúmslofti og óspilltri náttúru. Í því felst að fjölbreytni lífs og lands sé viðhaldið og náttúruminjar, óbyggð víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar. Fyrri spjöll skulu bætt eftir föngum.

Nýtingu náttúrugæða skal haga þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur.

Með lögum skal tryggja rétt almennings til að fara um landið í lögmætum tilgangi með virðingu fyrir náttúru og umhverfi.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: