Hrafn Magnússon skrifaði:
Samfélag
„Sjaldan er talað um það misrétti sem sparifjáreigendur þurfa að búa við, einkum og sér í lagi eldra fólk sem sýnt hefur hagsýni í fjármálum, sparað og frestað neyslu ýmiss konar. Þetta fólk hefur ekki hátt það er oft kallað “fjármagnseigendur” í neikvæðum tón. Samt er það svo að löngum hefur eldra fólk oft verið á berangri með sparifé sitt. Sparnaðurinn hefur rýrnað mjög mikið því í mörg ár hafa óverðtryggðir sparireikningar skilað neikvæðri ávöxtun og reyndar verðtryggðir reikningar líka, því oft þurfa menn að greiða 22% fjármagnstekjuskatt af verðbólgunni. Þeir eldri borgarar sem njóta lífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins eru satt best að segja meðhöndlaðir eins og sakamenn því 45% af fjármagnstekjunum, koma til lækkunar á lífeyri almannatrygginga. Allt þetta hefur verið sagt áður en án nokkurs skilnings þeirra sem geta komið í veg fyrir þessa óheillaþróun. Mér finnst stundum eins og margir forvígismenn almannasamtaka kunni varla prósentureikning og jafnvel ekki mun á nafnvöxtum og raunvöxtum, en það er önnur saga.“