Lilja Alreðsdóttir hefur lagt fram frumvarp um menntasjóð námsmanna. Hann mun taka yfir hlutverk LÍN. Gerðar verða miklar breytingar frá því regluverki sem nú er. Lilja hefur mælt fyrir frmvarpinu. Í ræðu sinni sagði hún meðal annas:
„Tíu atriði ber hæst í frumvarpinu. Í fyrsta lagi fá lánþegar námsstyrk í formi 30% niðurfærslu á höfuðstól námsláns, ásamt verðbótum, ljúki þeir prófgráðu innan tiltekins tíma.
Í öðru lagi geta námsmenn fengið beinan stuðning vegna framfærslu barna í stað lána og er það algjör nýbreytni sem tekur mið af þeirri lýðfræðilegu þróun sem hefur verið að eiga sér stað á Íslandi. Meðlagsgreiðendur eru ekki undanskildir og þar með verður Ísland fyrst Norðurlanda til að veita námsmönnum styrk vegna meðlagsgreiðslna.
Í þriðja lagi verður Menntasjóði heimilt að greiða námslán út mánaðarlega ólíkt því sem nú er og hefur það verið baráttumál stúdenta í mjög langan tíma.
Í fjórða lagi geta lánþegar valið við námslok hvort þeir endurgreiði námslán sín með verðtryggðu eða óverðtryggðu skuldabréfi. Er hér um að ræða algert nýmæli í takt við þann efnahagslega stöðugleika sem hefur verið á Íslandi og í takt við þróun þeirra kjara sem ríkissjóður Íslands hefur verið að fá á skuldabréfamarkaði sem eru þau bestu sem hafa verið í langan tíma.
Í fimmta lagi verður meginreglan sú að námslán verði að fullu greidd með mánaðarlegum afborgunum. Þau skulu að fullu endurgreidd þegar lánþegi nær 65 ára aldri.
Í sjötta lagi getur lánþegi valið að endurgreiða námslán sín með tekjutengdum afborgunum að því gefnu að námi ljúki í síðasta lagi á því ári sem hann verður 35 ára.
Í sjöunda lagi verður námsaðstoð ríkisins niðurfærsla á höfuðstól og stuðningur vegna barna undanþeginn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.
Í áttunda lagi falla niður ábyrgðir ábyrgðarmanna á námslánum teknum í tíð eldri laga sé lánþegi í skilum við Lánasjóð íslenskra námsmanna og ekki á vanskilaskrá. Þetta er mikið framfaraskref fyrir núverandi lánþega sjóðsins og alger umbylting og eftir þessu hefur verið kallað í mörg ár.
Í níunda lagi verður Menntasjóði heimilt að veita tímabundnar ívilnanir vegna endurgreiðslu námslána hjá lánþegum búsettum og starfandi á sérstökum svæðum og vegna tiltekinna námsgreina.
Að lokum, í tíunda lagi, er gert ráð fyrir að afborganir námslána ásamt álagi standi að fullu undir lánveitingum sem Menntasjóðurinn veitir. Sjóðurinn verður sjálfbær.“