Eldra fólk og öryrkja lifi áfram í fátækt
„Öryrkjar fengu einu sinni nokkrar krónur, sem dugðu því miður skammt því að þær voru teknar margfalt til baka með verðbólgu og gengisfalli krónunnar. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að matvara hefur stórhækkað, og við erum að tala um hækkun á matvöru um allt upp í 30–40%, sem ég hef séð. Þetta er hækkun vegna gengisins, verðbólgu. Á sama tíma hefur þetta fólk ekki fengið krónu til að taka á þessum hækkunum. Það þarf að herða sultarólina,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins.
„Eldri borgarar og öryrkjar fengu
ekki leiðréttingu vegna bankahrunsins og eru þeir þeir einu sem ekki hafa
fengið hana. Þessi hópur á inni hækkun upp á um 50.000 kr. á mánuði eftir
skatt. Það er staðreynd. Tekjur þeirra eftir skatt ættu að vera um 270.000 kr.
á mánuði og þá á eftir að leiðrétta skattprósentuna vegna þess að skattar hafa
stórhækkað. Þeir hafa ekki fylgt launavísitölu, þannig að ef rétt væri gefið í
dag er ég alveg sannfærður um, sama hvernig við reiknum það út, að það þyrfti
enginn á Íslandi að lifa á undir 350.000 kr. á mánuði skatt- og
skerðingarlaust. Og það eru engin ofrausn, ekki á nokkurn hátt. Nei, skilaboðin
í bankahruninu og Covid-19 eru skýr: Þessi hópur skal að stórum hluta halda
áfram að lifa og það í fátækt. Einnig skulu börn lifa áfram í sára fátækt því að
það á að verja stöðu þeirra í dag, verja það að stór hópur þarf að fara til
hjálparstofnana til að biðja um hvað? Jú, mat, föt, skólabækur. Er það
eðlilegt? Getum við réttlætt það á einhvern hátt?“