„Megináherslan hér á landi hefur verið lögð á það að efla upplýsinga- og tæknilæsi barna og ungmenna. Erlendar rannsóknir hafa þó sýnt að fólk 65 ára og eldra er líklegast til að deila falsfréttum á samfélagsmiðlum. Hætta er á að notendur samfélagsmiðla festist í vítahring þar sem margvíslegum upplýsingum um notendur miðlanna er safnað og sérsniðnum falsfréttum og áróðri beint að þeim,“ sagði Silja Dögg Gunnarsdóttir meðal annars þegar hún mælti fyrir þingsályktunartillögu um viðbrögð við upplýsingaóreiðu.
„Og eins og ég segi þá er þetta kannski ekki niðurstaða sem kemur á óvart, að eldra fólkið er líklegra til að dreifa fölskum fréttum á samfélagsmiðlum en það er eitthvað sem þarf að skoða og bregðast við. Börn og ungmenni í dag alast upp með tækninni og samfélagsmiðlum og læra á þetta jafnóðum og kenna hvert öðru á meðan eldri hópunum er kannski dembt inn í þetta með litlum fyrirvara og þurfa að taka mikið inn í einu sem gerir þá kannski veikari fyrir fölskum fréttum. Þeir lenda t.d. í alls konar svikum á netinu og fá alls kyns vírusa og hitt og þetta sem getur haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér. Þetta snýst kannski ekki bara um upplýsingalæsi heldur líka umgengni við þessa miðla og að átta sig á hvernig maður les í upplýsingar og metur gildi þeirra. Við þurfum klárlega að leggja meiri áherslu á eldri aldurshópana til að verja þá fyrir þessum skaðlegu hlutum.“